Er Skagafjörður þröngur og djúpur? - Mótmæli við mótmæli Atvinnu- og ferðamálanefndar Skagafjarðar
Þann 17. feb. 2011 rakst ég á grein sem vakti forvitni mína í þeim ágæta héraðsvefmiðli Feykir.is og er gaman að sjá hvað Feykir.is virðist vera öflugur og vel upp settur héraðsfréttamiðill. Umrædd grein ber yfirskriftina: “Undrast viðhorf Ernu Hauksdóttur og vilja bjóða henni í mat”
Þar er Atvinnu- og ferðamálanefnd Svf. Skagafjarðar að senda frá sér mótmæli við meintum "neikvæðum yfirlýsingum framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar um íslensk matvæli og þeim fullyrðingum að verð á þeim hamli ferðaþjónustu.".
Og hvert er viðhorf Ernu Hauksdóttur. Jú hún hefur þá skoðun að matarverð á Íslandi sé svo hátt að það standi ferðaþjónustu á landinu fyrir þrifum. Svo kemur trúlega höfuð syndin, hún hefur þá trú "að innganga í ESB myndi laga ástandið".
Nú er það svo að framkvæmdarstjóri Samtaka ferðaþjónustunnar ætti að hafa þó nokkra hugmynd um hvar helst kreppir skóginn í vexti og viðgangi ferðaþjónustu á Íslandi og væri hún ekki að sinna sínu starfi ef svo væri ekki. Og hvaðan hefur hún þá vitneskju að matvælaverð sé himin hátt á Íslandi? Jú, ég veit að Samtökin afla sér upplýsinga með að spyrja ferðamennina sjálfa í formi spurningalista og kannana sem dreift er til erlendra ferðamanna. Það eru sem sagt ferðamennirnir sjálfir sem halda þessu fram. Og hvert er viðmið þeirra, það er það verð sem þeir greiða í sínu heimalandi, en flestir þeirra koma frá Evrópusambandslöndunum og þeim blöskrar verðið. Raunar þarf ekki erlenda ferðamenn til að segja okkur sem búum á „mölinni“ að matur á Íslandi er rándýr, við höfum frétt það eftir ýmsum öðrum leiðum, þó svo að sú vitneskja hafi enn ekki borist til Atvinnu- og ferðamálanefndar Skagafjarðar.
En Atvinnu- og ferðamálanefnd Skagafjarðar kýs að tengja saman matarverð og og þá þjónustu sem nefnist matartengd ferðaþjónusta og kemst að þeirri furðulegu niðurstöðu að sú þjónusta þrífist best ef matarverð lækki ekki. Og nú spyr ég Atvinnu- og ferðamálanefnd Skagafjarðar hvor þeim finnist bara allt í lagi að við á "mölinni" borgum himinhátt verð fyrir matvæli svo að matvælatengd ferðaþjónusta megi þrífast í Skagafirði að áliti nefndarinnar, á meðan ferðaþjónusta í þéttbýli (og þar með á mölinni) á undir högg að sækja vegna þessa sama matvælaverðs. Í minni sveit hét röksemdafærsla sem þessi, að hátt matarverð væri forsemda matvælatengdrar ferðaþjónustu,“hundalógik” og það er hún og því mótmæli ég þeim fullyrðingum Atvinnu- og ferðamálanefndar Skagafjarðar að framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar sé að vinna gegn matartengdri ferðaþjónustu í Skagafirði, þvert á móti er hún að vinna í þágu hennar og raunar í þágu allrar ferðaþjónustu jafnt í Skagafirði sem annarsstaðar á landinu með því að berjast fyrir lægra matarverði í landinu. Því ætti Atvinnu- og ferðamálanefnd Skagafjarðar að fagna ummælum Ernu Hauksdóttur og bjóðast til að aðstoða hana og aðra að ná niður kostnaði í ferðaþjónustunni og þar á meðal matarverði, í stað þess að hreyta í hana ónotum.
Að lokum vil ég upplýsa nefndarmenn í Atvinnu- og ferðamálanefnd Skagafjarðar að þeir búa hvorki í þröngum né djúpum dal þó svo að viðhorf þeirra í því sem þeir kjósa að kalla mótmæli við"neikvæðum yfirlýsingum framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar um íslensk matvæli og þeim fullyrðingum að verð á þeim hamli ferðaþjónustu." bendi til annars.
Með vinsemd og virðingu
Sigbjörn Guðjónsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.