Er brottkast á síld orsökin fyrir sýkingu í stofninum ?

Það læðist að manni sá grunur að ástæðan fyrir sýkingu síldarstofnsins sé sá gengdarlausi sóðaskapur sem viðgengist hefur á síldarmiðunum sl, nokkur ár. Risavaxin flottrollsskip með fullvinnslu um borð hafa verið að ryðja sér til rúms með aukinni græðgisvæðingu í sjávarútvegi. 
(Ryksugutogarar eins og Kristján Ragnarsson fyrrverandi formaður LÍÚ kallaði þýsku vinnsluskipin fyrir 30 árum).
Undanfarin ár hefur síldinni verið skóflað upp í stórum stíl upp í fjöru við Grundarfjörð og víða. Mörg skip hafa fengið mun meira magn en þau hafa ráðið við að taka um borð og oft á tíðum hefur mörg hundruð tonnum verið sleppt dauðum niður á veiðislóðina.
Fullvinnsluskipin eru gjörn á að liggja yfir og nálægt veiðislóð síldarinnar sólarhringum saman og smásíld, slóg, hausar og ýmis afskurður fer þá í hafið í þúsunda tonna tali.
Ekki er ósennilegt að þetta sé ástæðan fyrir ástandinu á síldarstofninum í kringum landið!
Eins vakna upp spurningar um hvers vegna síldin hefur þjappað sér á mjög svo óvenjuleg svæði inn í Grundarfirði og innan skerja við Stykkishólm.
Hvaða áhrif hafa hinir nýju öflugu fjölgeislamælar á síldartorfunar í bland við mörg þúsund hestafla vélbúnað síldarskipanna ?
Nú verður ekki undan því vikist að "FISKISTOFA" rannsaki málið og beiti við það sömu aðferðum og stofnunin hefur notað á undanförnum árum gegn ýmsum einyrkjum með veiðileyfissviftingum.
Níels A. Ársælsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir