Engir Smábæjaleikar í sumar
Smábæjaleikunum á Blönduósi hefur verið aflýst í sumar en leikarnir hafa verið haldnir 16 sinnum og jafnan verið vel mætt til leiks. Smábæjaleikarnir eru fyrir knattspyrnulið yngri flokka og á síðasta ári voru 62 lið skráð til keppni með um 400 þátttakendum. Þá voru um 300 aðstandendur í fylgdarliði leikmanna.
Í frétt á vefnum huni.is segir að í tilkynningu frá stjórn knattspyrnudeildarinnar segi að þessi ákvörðun sé tekin með þungum hug en að vel ígrunduðu máli. Mótið sé brothætt í eðli sínu hvað fjölda þátttakenda varði og að hvert einasta lið skipti máli. Því sé öðruvísi farið á stóru mótunum hjá stærri félögum þar sem jafnvel 10-15 lið til eða frá skipti ekki sköpum. Það sé ekki ætlunin að leggja upp laupana og ætlunin sé að koma sterk inn á næsta ári. "Því vonum við innilega að þau félög sem hafa haldið tryggð við okkur undanfarin ár og þau félög sem áhuga hafa á að koma á Smábæjaleikana skilji þessa ákvörðun okkar og mæti til okkar galvösk að ári,“ segir í tilkynningunni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.