Íbúum í Skagafirði fjölgar mest

Sauðárkrókur í maí 2023. Mynd: ÓAB
Sauðárkrókur í maí 2023. Mynd: ÓAB

Íbúum Skagafjarðar fjölgaði um 64 íbúa eða 1,5 prósent á tímabilinu frá 1. desember 2022 til 1. ágúst 2023, sem er mesta fjölgunin í einstaka sveitarfélagi á Norðurlandi vestra. Íbúar Skagafjarðar eru nú 4382 talsins. 

Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar, telur að ýmsar skýringar séu að baki þessum tölum. Þarna sé um að ræða fólk og fjölskyldur sem eru að flytja hingað í talsverðum mæli, bæði fólk sem á rætur að rekja hingað og þekkir því vel til kosta svæðisins en einnig fólk sem er að flytja vegna þess einfaldlega að hér hafa verið spennandi störf í boði.

Jafnframt er nokkuð um fólk með erlent ríkisfang sem er að flytja til Skagafjarðar og þar á meðal getur verið um að ræða fólk sem er að flytja hingað tímabundið vegna vinnu en einnig fjölskyldur sem eru að setjast hér að til langframa.

„Hér er atvinnuástand mjög gott og mikil eftirspurn eftir fleiri höndum til vinnu í mjög fjölbreytt störf. Fasteignamarkaðurinn er einnig nokkuð virkur hér og talsvert byggt. Þá höfum við náð því nokkuð vel að vera með framboð leikskólarýma fyrir börn frá u.þ.b. 12 mánaða aldri en ljóst að við þurfum að vera á tánum hvað það varðar ef raunfjölgun íbúa heldur áfram að vera umfram það sem við áætlum í húsnæðisáætlun okkar og aðalskipulagi,“ segir Sigfús í samtali við Feyki.

Að lokum segir hann að þjónusta og almennir innviðir séu hér einnig góðir og mannlífið framúrskarandi svo því sé til haga haldið af meðfæddri skagfirskri hógværð eins hann orðar það svo skemmtilega.

Fjölgun í Húnabyggð en fækkun á Skagaströnd

Íbúafjöldi Húnabyggðar jókst um 17 manns eða um 1,3 prósent og stendur nú í 1314 manns.

Fjöldi íbúa í Húnaþingi vestra stóð nær alveg í stað, fækkaði um einn íbúa (0,1 prósent) og búa þar nú 1258 manns.

Íbúum Sveitarfélagsins Skagastrandar fækkaði um flesta, 14 manns (2,9 prósent), þar búa nú 469 manns en hlutfallslega mesta fækkunin var í Skagabyggð þar sem íbúum fækkaði um 3,4 prósent, heila þrjá íbúa en heildarfjöldinn þar telur nú 86 manns.

Athygli vekur að nú eru yfir 20 þúsund íbúar á Akureyri - sennilega í fyrsta skipti en þó er hlutfallslega meiri fjölgun á Sauðárkróki en Akureyri frá áramótum og jafn mikil í Húnabyggð. Íbúar á Norðurlandi vestra eru nú yfir 7500 talsins.

Sjá nánar >

/SMH

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir