Fjögur ný Íslandsmet sett um helgina í Norrænu trapi
Um helgina fór fram Íslandsmeistaramótið í Norrænu trapi á nýjum NT velli Skotfélagsins Markviss á Blönduósi. Fram kemur á Facebooksíðu skotfélagsins að veður hafi verið með eindæmum gott og var skotið við bestu mögulegu aðstæður þar sem sól og logn var nær alla helgina. Alls mættu 16 keppendur til leiks frá fimm félögum, Skotíþróttafélagi Hafnarfjarðar (SIH), Skotfélaginu Markviss Blönduósi (MAV), Skotfélagi Húsavíkur (SKH), Skotfélagi Reykjavíkur (SR) og Skotfélagi Ólafsfjarðar (SKÓ).
Keppt var í unglingaflokki og karla- og kvennaflokki og voru fjögur Íslandsmet sett um helgina, þar af eitt sem var tvíbætt. Met Felix Jónssonar í unglingaflokki (71 dúfa) frá því fyrr í sumar var tvíbætt er Elyass Kristinn Bouanba MAV byrjaði á því að bæta það um átta dúfur með skorinu 79 og svo aftur er Sigurður Pétur Stefánsson MAV bætti svo um betur og er Íslandsmet unglinga í dag 88 dúfur. Unglingakeppnin endaði þannig að Sigurður Pétur sigraði með 88 dúfur, Elyass Kristinn varð í öðru sæti með 79 dúfur og Jón Gísli Stefánsson MAV í því þriðja með 65 dúfur. Saman mynduðu þeir svo unglingalið Markviss og settu Íslandsmet með samanlögðu skori upp á 232 dúfur.
Aðeins einn keppandi var í kvennaflokki og var það Snjólaug María Jónsdóttir MAV. Endaði hún á skorinu 101 sem er hennar fjórða besta skor í Norrænu trapi og á hún einnig núverandi Íslandsmet sem er 114 dúfur.
Keppnin í karlaflokki var hörkuspennandi og stóð þar Stefán Kristjánsson SIH uppi sem sigurvegari með 135 dúfur af 150, þar af 20 í úrslitum. Bætti hann sitt fyrra met frá því fyrr í sumar sem var 123 dúfur. Í öðru sæti var Guðmann Jónsson MAV með 122 dúfur, 24 í úrslitum og þriðji var Timo Salsola SÍH með 118 dúfur, 23 í úrslitum.
Að lokum tókst liðsfélögum SÍH-A að bæta Íslandsmetið 344 dúfur frá því í fyrra og skutu þeir Stefán Kristjánsson (135), Ásbjörn Sírnir Arnarson (120) og Bjarki Magnússon (114) samanlagt 369 dúfur.
/SHV
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.