Jafntefli hjá Stólunum í fyrsta leik sínum í Lengjubikarnum
Tindastólsmenn, sem munu leika í 3. deildinni í sumar, hafa loks náð að safna í lið og eru komnir á ferðina í Lengjubikarnum. Þar mættu strákarnir liði Sindra frá Höfn í Hornafirði og var spilað í Skessunni í Hafnarfirði. Lokatölur urðu 2-2 eftir að Hornfirðingar jöfnuðu undir lok venjulegs leiktíma.
Lið Tindastóls náði forystunni í uppbótartíma fyrri hálfleiks með marki Arnars Ólafssonar. Hermann Þór Ragnarsson jafnaði metin á 50. mínútu en Óskar Smári Haraldsson, sem var kominn í Tindastólstreyjuna að nýju, kom sínum mönnum yfir á ný aðeins fimm mínútum síðar. Einar Karl Árnason jafnaði fyrir lið Sindra á 88. mínútu og þar við sat og liðin skiptu því með sér stigunum.
Tindastóll tekur þátt í 2. riðli B-deildar Lengjubikarsins en auk Stólanna og Sindra eru KV, Haukar, Vængir Júpíters og Þróttur Vogum í riðlinum. Næsti leikur er áætlaður nú á laugardag og ef allt gengur upp verður hann leikinn á Sauðárkróksvelli (gervi-grasinu) kl. 15:00. Það eru piltarnir úr Vogunum sem ætla að voga sér norður.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.