Tap gegn Víði á Sauðárkróksvelli
Í gærkvöldi fór fram leikur Tindastóls og Víðis í 2. deild karla á Sauðárkróksvelli. Ekki var mikið af færum í þessum leik en gestirnir náðu að skora þrjú mörk og endaði leikurinn 0-3 fyrir Víði.
Gestirnir byrjuðu leikinn betur og á fimmtu mínútu skoruðu þeir fyrsta mark leiksins, þar var á ferðinni Ari Steinn Guðmundsson sem náði að vippa boltanum yfir Faerber í markinu sem náði ekki til knattarins. Eftir mark Víðis pökkuðu þeir í vörn og var Tindastóll meira með boltann en náðu hinsvegar ekki að skapa sér nein færi bókstaflega enginn færi og staðan í hálfleik 0-1 fyrir Víði.
Í upphafi síðari hálfleiks var allt annar bragur á liði Tindastóls. Liðið var að skapa sér hálffæri en vantaði oft síðustu sendinguna eða ná skoti á markið. Á 57. mínútu gerði Tindastóll breytingu þegar þeir skiptu besta manni Tindastóls, Konráð Frey útaf og breytti það gangi leiksins heilmikið, alveg fáránleg skipting. Á 71. mínútu skoraði Helgi Þór Jónsson mark fyrir Víði og staðan orðinn 0-2 fyrir gestina. Eftir annað mark Víðis fór Tindastóll að sækja á fleiri leikmönnum en eins og fyrr í leiknum skapaði Tindastóll sér enginn færi. Í uppbótartíma kom þriðja mark Víðis eftir að Tindastóll missti boltann á miðjunni og ein sending inn fyrir og mark sem Helgi Þór Jónsson skoraði. Lokatölur 0-3 fyrir Víði.
Þetta var með þeim lélegustu leikjum Tindastóls í sumar og verður brekkan brattari og brattari. Eins og ég minntist á áðan þá var Konráð Freyr besti leikmaður Tindastóls, það var í raun alveg óskiljanlegt afhverju þjálfarar Tindastóls tóku manninn útaf sem hafði stjórnað leiknum frá A til Ö.
Næsti leikur hjá Tindastól er á móti Dalvík/Reyni og verður leikurinn spilaður fimmtudaginn 8. ágúst klukkan 19:15 á Dalvíkurvelli.
/EÍG
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.