Fjórða tap Tindastóls í fjórum leikjum
Leikið var á fagurgrænum Sauðárkróksvelli í gærkvöldi en mættust lið Tindastóls og Dalvíkur/Reynis í 2. deild karla í knattspyrnu. Eyfirðingum var spáð sæti um miðja deild í spá þjálfara á Fótbolti.net en Stólunum, eins og áður hefur komið fram, neðsta sæti. Niðurstaðan í leiknum var því eftir bókinni en gestirnir höfðu á endanum betur og sigruðu 1-2.
Ekkert var skorað í fyrri hálfleik en Stólarnir urðu fyrir áfalli eftir rúmlega hálftíma leik en þá var Spánverjanum Alvaro Igualada vísað af velli, fékk beint rautt. Í framhaldinu fékk Yngvi Borgþórs, þjálfari Tindastóls, gult spjald og einn varamaður Stólanna, Aron Örn Sigurðsson, fékk að fylgja Alvaro í sturtu, fékk sömuleiðis rautt. Fram að þessu hafði lið Tindastóls verið heldur sterkari aðilinn í leiknum og voru það fram að hléi.
Eyfirðinum gekk illa að nýta sér liðsmuninn í síðari hálfleik og það var ekki fyrr en á 73. mínútu sem þeir brutu ísinn en þá skoraði Joan De Lorenzo Jimenez eftir klaufagang í vörn Tindastóls. Tindastólsmenn gáfust ekki upp og Benjamín Gunnlaugarson jafnaði metin úr víti á 84. mínútu en aðeins þremur mínútum síðar gerði Jóhann Sigurjónsson sigurmark leiksins og aftur voru Stólarnir sjálfum sér verstir.
Svekkjandi tap fyrir Tindastólsmenn sem í raun áttu ágætan leik og hefðu átt skilið að fá meira út úr honum. Liðið er engu að síður enn stigalaust eftir fjórar umferðir – líkt og í fyrrasumar – sem er að sjálfsögðu áhyggjuefni en verra er að liðinu gengur afleitlega að skora, aðeins búið að gera eitt mark í leikjunum fjórum.
Næsti leikur er gegn liði KFG (Knattspyrnufélags Garðabæjar) á Samsung-vellinum í Garðabæ laugardaginn 1. júní en lið KFG hefur farið ágætlega af stað í sumar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.