Eldur um borð í Örvari í gærkvöldi.
Klukkan 19:22 fengu Brunavarnir Skagafjarðar boð frá Neyðarlínunni um að eldur væri laus um borð í Frystitogaranum Örvari sem lá í höfn á Sauðárkróki.
Menn sem voru við vinnu um borð urðu varir við nokkurn reyk á vinnsludekki og við eftirgrennslan sáu þeir að logaði upp í lofti á millidekki.
Þeir brugðust vel og fumlaust við og náðu að tæma úr einu slökkvitæki áður en þeir þurftu frá að hverfa. Hringdu þeir því næst í 112 og tilkynntu um eldinn. Þegar Brunavarnir Skagafjarðar komu á staðinn skömmu síðar voru 4 reykkafarar sendir um borð. Fundu þeir fljótlega staðinn sem eldsupptökin voru og gátu staðfest eftir að hafa rofið klæðningar í lofti að eldurinn væri slökktur.
Þarna fór betur en á horfðist og má þakka snöggum viðbrögðum þeirra sem uppgötvuðu eldinn að ekki fór ver. Því næst var skipið reykræst því þó nokkur reykur hafði farið víða um skipið.
Aðgerðum lauk um klukkan rúmlega átta.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.