Eins og létt æfing hjá Njarðvíkingum
Tindastóll fékk lið Njarðvíkur í heimsókn í Síkið í gær en ekki virtist matarlist Króksaranna mikil því Njarðvíkingar léku við hvurn sinn fingur og unnu næsta auðveldan sigur, 79-106. Það sem helst fór fyrir brjóstið á stuðningsmönnum Tindastóls var lítið sjálfstraust og ráðaleysi sem einkenndi leik heimamanna gegn sterku liði gestanna.
Heimamenn lentu í villuvandræðum strax í fyrsta leikhluta en áður en honum lauk voru bæði Svavar og Kenney komnir með þrjár villur. Það var því ljóst að þeirra framlag yrði ekki eins og til var ætlast og sátu þeir kappar talsvert utan vallar og gátu ekki beitt sér sem skildi í varnarleiknum þegar þeirra naut við. Oft virtust villur gefnar fyrir litlar sakir en þessi gjafmildi dómaranna bitnaði meira á liði Tindastóls þar sem villurnar dreifðust ekki á jafn marga leikmenn og hjá Njarðvíkingum. Alls náðu þeir félagar að dæma 53 villur í leiknum.
Leikmenn fóru rólega af stað og lítið var skorað fyrstu 4-5 mínúturnar. Njarðvíkingar höfðu þó yfirhöndina frá byrjun en Tindastólsmenn héldu í við gestina fram á lokamínútu fyrsta leikhluta en þá gerðu Njarðvíkingar þrjár körfur í röð, staðan í hálfleik 16-25.
Þrátt fyrir að Svavar og Kenney sætu á bekknum megnið af öðrum leikhluta börðust Stólarnir fyrir sínu í öðrum leikhluta en líkt og í fyrsta leikhluta enduðu gestirnir leikhlutann með glæsibrag og komu muninum í 15 stig. Staðan í hálfleik 39-54.
Gestirnir keyrðu upp hraðann í þriðja leikhluta og oft virtist sem þeir væru á léttri æfingu. Munurinn fór yfir 20 stigin og mest í 30 stig í stöðunni 50-80. Tindastólsmenn virtust ráðalitlir en komust sem betur fer á vítalínuna af og til. Michael var drjúgur í fjórða leikhluta og Sigmar Björns sýndi góða baráttu þær mínútur sem hann var inná. Lokatölur sem fyrr segir 79-106
Sigur Njarðvíkinga var leiðinlega auðveldur í gærkvöldi og því miður virtist skorta leikgleði og sjálfstraust hjá heimamönnum. Kenney Boyd sýndi ágæta takta í leiknum en það er synd að kappinn er ekki í formi og því varla hálfur maður. Aðrir leikmenn voru ekki heldur upp á sitt besta en Michael var stigahæstur Tindastólsmanna með 19 stig.
Njarðvíkingar skoppuðu hins vegar um Síkið uppfullir af öryggi enda hópurinn breiður og sterkur og sýndu leikmenn þeirra oft lagleg tilþrif. Sigur þeirra virkaði fyrirhafnarlítill.
Karl Jónsson þjálfari hafði þetta að segja við heimasíðu Tindastóls þegar hann var spurður út í leikinn: “Við vorum að spila gegn besta liði landsins um þessar mundir, í því eru margir landsliðsmenn og þeir hafa nú fengið einn litríkasta kanann sem spilað hefur hér á Íslandi. Hann veit nákvæmlega til hvers er ætlast af honum og hér þekkir hann allar aðstæður. Það var margt jákvætt í leik okkar, við lögðum upp með að hleypa þeim ekki í einhverja skotsýningu að utan og við náðum framan af leik að halda okkur á pari við planið okkar. Við misstum þá hins vegar of langt fram úr okkur undir lok fyrri hálfleiks og vorum klaufar að gera það. Auk þess misstum við lykilmenn í villuvandræði sem hafði vissulega áhrif á okkar leik. En við ætlum okkur að taka það jákvæða úr þessum leik með okkur í leikinn á móti Grindvíkingum á sunnudaginn í bikarnum og halda áfram að bæta okkur.”
Stigaskor Tindastóls: Michael 19, Kenney 16, Axel 10, Friðrik 9, Svavar 9, Helgi Freyr 8, Helgi Rafn 6 og Sigmar Logi 3.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.