Einar K fær svör frá umhverfisráðherra um minka og refaveiðar
Einar K Guðfinnsson þingmaður lagði nokkrar spurningar fyrir umhverfisráðherra varðandi kostnað við eyðingu refa og minka fyrir skömmu. Svörin eru komin og eru nokkuð athyglisverðar í ljósi þess að þar sést að samhliða minnkandi framlaga ríkisins jukust tekjur ríkisins í formi virðisaukaskatts.
Einar segir að það sé ýmislegt sem vekur athygli í svari ráðherrans en það er miðað við verðlag þessa árs, þannig að tölurnar eru leiðréttar fyrir verðbólgu og algjörlega samanburðarhæfar. Fjárveitingar til málaflokksins hafa lækkað um c.a 10 milljónir króna að raungildi eða um c.a 20% á tímabilinu, sem eru fimm ár en á sama tíma hafa endurgreiðslur vegna virðisaukaskatts aukist heldur. Það gefur til kynna að ekki hafi dregið úr veiðinni, en að sveitarfélögin hafi tekið á sig stærri hluta kostnaðarins.
-Þessi þróun bitnar því klárlega mest á minni, dreifbýlli og kannski veikari sveitarfélögunum. Þeirra hlutur verður æ þyngri. Athyglisvert er að í upphafi tímabilsins, það er árið 2005, var nettóframlag ríkisins til eyðingu refa og minka um 34 milljónir króna. Með nettóframlagi á ég við fjárveitingu að frádregnum virðisaukaskatti sem sveitarfélögin þurfa að greiða ríkinu vegna kostnaðar við eyðingu á ref og mink. Á þessu ári var nettóframlagið orðið 23,3 milljónir króna. Hafði sem sagt dregist saman um þriðjung. Ég tel að þessar tölur séu athyglisverðar og varpi ljósi á þá umræðu sem fram hefur farið fram um þessi mál á undanförnum árum, segir Einar.
Spurningar Einars og svör Svandísar má sjá hér fyrir neðan:
1. Hver hafa verið árleg fjárframlög ríkisins til veiða á ref og mink frá árinu 2005? Svar óskast sundurliðað eftir árum á núgildandi verðlagi.
Fjárheimildir til veiða á ref og mink þróuðust þannig á árunum 2005–2009 á verðlagi ársins 2009:
Ár Fjárheimild
2005 45,0 m.kr.
2006 44,3 m.kr.
2007 44,0 m.kr.
2008 33,2 m.kr.
2009 34,8 m.kr.
Samtals 201,3 m.kr.
2. Hve mikið hefur verið innheimt af virðisaukaskatti á sama tíma vegna veiða á ref og mink? Svar óskast sundurliðað eftir árum á núgildandi verðlagi.
Innheimtur virðisaukaskattur greinist þannig eftir árum á fyrrgreindu tímabil á verðlagi ársins 2009:
Ár Innheimtur vsk.
2005 10,9 m.kr.
2006 11,1 m.kr.
2007 11,2 m.kr.
2008 11,9 m.kr.
2009 11,5 m.kr.
Samtals 56,6 m.kr.
3. Hver eru markmiðin með kostnaðarþátttöku ríkisins við veiðar á ref og mink og hvernig verður unnið að þeim?
Markmið með veiðum á ref og mink eru ólík. Minkurinn er innflutt tegund sem sloppið hefur út í náttúruna og veldur oft verulegu tjóni og getur haft umtalsverð áhrif í náttúrunni. Hann hefur ekki, þrátt fyrir mikla útbreiðslu í áttatíu ár í íslenskri náttúru, verið viðurkenndur sem íslensk tegund. Undanfarin þrjú ár hefur verið í gangi tilraunaverkefni sem miðar að því að kanna hvort gerlegt sé að útrýma mink úr íslenskri náttúru eða hvort mögulegt sé að halda ákveðnum mikilvægum svæðum minklausum. Verkefninu lýkur á næsta ári og fást þá vísbendingar um möguleika þess að draga úr dreifingu minksins eða útrýma honum úr náttúrunni. Meðan verið er að ljúka tilraunaverkefninu er markmiðið með veiðum á mink utan tilraunasvæðanna að halda mink í skefjum.
Markmið með veiðum á ref eru annars eðlis og miðast við að draga úr eða koma í veg fyrir tjón af völdum refa einkum á hlunnindum bænda. Refaveiðar eru á ábyrgð sveitarfélaganna en ríkinu er heimilt samkvæmt lögum að greiða allt að helmingi kostnaðar á móti þeim eftir því sem fjárlög veita svigrúm til. Þar sem refurinn er íslensk tegund er markmið með veiðunum fyrst og fremst að draga úr því tjóni sem hann veldur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.