Ein ferna og tveir þristar á Blönduósvelli
Heimamenn í Kormáki/Hvöt sýndu Snæfellingum enga miskunn þegar knattspyrnukempurnar frá Stykkishólmi heimsóttu Blönduós í gær. Heimamenn gerðu þrettán mörk í leiknum og ekki á hverjum degi sem einn leikmaður gerir fjögur mörk og tveir setja þrjú í einum og sama leiknum. Lokatölur voru 13-1 og Húnvetningar í öðru sæti B-riðils 4. deildar en eiga leik til góða á topplið KFR.
Staðan var orðin 4-0 eftir 20 mínútur en Viktor Ingi fullkomnaði þrennuna á 41. mínútu, hafði áður skorað á 9. og 16. mínútu. Hilmar Kára hafði komið heimamönnum yfir eftir sex mínútna leik og Ingvi Rafn fyrirliði kom sínum mönnum í 4-0 á 20. mínútu. Staðan 5-0 í hálfleik.
Yfirburðirnir voru svo miklir að Bjarki Már þjálfari gat hvílt sig í síðari hálfleik. Síðan héldu heimamenn áfram að sjóða sína markasúpu. Ingvi Rafn skoraði á 49. mínútu, Oliver Torres skoraði mínútu síðar, Viktor Ingi gerði fjórða mark sitt á 53. mínútu og var þá skipt út af. Hilmar Þór gerði annað mark sitt á 62. mínútu og síðan gerði Ágúst Friðjóns tvö mörk á 63. og 65. mínútu en síðan gerðist hið óvænta – Oliver Þrastarson skoraði fyrir gestina á 73. mínútu. Ingvi Rafn svaraði að bragði og fullkomnaði sína þrennu tveimur mínútum síðar og á 90. mínútu gaf Ágúst Snæfellingum síðasta selbitann og kórónaði sitt hat-trick. 13-1 – takk fyrir og túkall.
Lið Kormáks/Hvatar er sem fyrr segir í öðru sæti riðilsins með 19 stig eftir átta leiki en KFR er á toppnum með 20 stig eftir níu leiki. SR er síðan með 15 stig eftir sjö leiki en þessi þrjú lið virðast ætla að berjast um efstu tvö sæti riðilsins sem veita þátttökurétt í úrslitakeppni 4. deildar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.