Dúndurstemmari á Tindastuði þrátt fyrir rok og rigningu

Arnar og Helgi (Úlfur Úlfur) í stuði og skíðabrekkan í baksýn. MYNDIR: @solstefphography
Arnar og Helgi (Úlfur Úlfur) í stuði og skíðabrekkan í baksýn. MYNDIR: @solstefphography

Það var allt að gerast á skíðasvæðinu í Tindastólnum á laugardaginn, lyftan á fullu, skíðagöngunámskeið seinni partinn og Tindastuð um kvöldið þar sem Úlfur Úlfur, Gusgusar og Flóni skemmtu góðum hópi gesta sem lét rok og rigningu ekki eyðileggja fyrir sér stemninguna í brekkunni.

Veðurspáin sl. fimmtudag var afar hagstæð fyrir Tindastuð þar sem brettahetjur og svalt tónlistarfólk ætlaði að skemmta gestum. Skjótt skipast hins vegar veður í lofti hér á Fróni og frá því að spá smá golu og úrkomuleysi var Veðurstofan búin að skipta yfir í hellidembu og um 20 metra að sunnan og það bara svona rétt á meðan að Tindastuðið átti að fara fram.

Það voru því ekki aðstæður til að sýna brettakúnstir en tónlistarfólkið lét bræluna ekki stöðva sig. „Þetta var dúndurstemmari þótt veðurguðirnir hafi ekki verið í stuði,“ sagði Sigurður Hauksson, umsjónarmaður skíðasvæðisins, þegar hann var spurður hvernig til hafi tekist. „Fínasta mæting og mikið líf í fólkinu þrátt fyrir leiðinlegt veður en það er ákveðin sjarmi og stemning í þessu líka. Enda skíðafólk ýmsu vant þegar farið er til fjalla.“

Íslandsmótið í Snocross á laugardaginn

Siggi segir að það hafi síðan snjóað um nóttina og þó svo rignt hafi eldi og brennisteini sl. laugardagskvöld sé fullt af snjó á svæðinu. Og ekki veitir af því nk. laugardag fer þriðja umferð Íslandsmótsins í Arctic Cat Snocross fram á svæðinu.

„Mæting hefur verið góð!“ segir Siggi þegar hann er spurður út í aðsóknina á svæðið í vetur. „Við vorum fyrsta skíðasvæðið á landinu til að opna og það hefur verið vel mætt þegar veðurguðirnir leyfa okkur að opna! Skrítinn vetur veðurlega séð en stormarnir hafa skilið eftir flott magn af snjó sem dugar fram yfir páska.“

Hér má sjá nokkrar myndir frá Tindastuði sem @solstefphography gaf góðfúslegt leyfi að birta.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir