Drama- og grínóperur í Miðgarði

alexandra_grinoperur (2)Tvær óperur, The Telephone, bresk grínópera eftir Gian Carlo Menotti og Biðin, dramatísk rússnesk ópera eftir Mikael Tariverdiev verða sýndar í Menningarhúsinu Miðgarði laugardaginn 19. sept kl. 20:30.

 

The Telephone eftir Gian Carlo Menotti er ópera í einum þætti sem frumsýnd var 1947 á Broadway, New York.

Óperan hefst heima hjá Lucy, rússneskri konu sem finnst fátt skemmtilegra en að tala í símann og er háð því að tala í hann. Hún á kærasta, Ben sem er ríkur flugmaður og óperan snýst uym  ástarþríhyrninginn milli Lucy, Ben og símans. Þetta er létt og skemmtileg ópera sem er full af gríni, hlátri og ást og er flutt á ensku. Helstu hlutverk, Alexandra Chernyshova, sópran, Michael Jón Clarke, barítón og Daníel Þorsteinsson, píanó og Aðalsteinn Bergdal, leikstjóri.

 

Biðin eftir Mikael Tariverdiev er mónó-ópera í einum þætti sem frumsýnd var 1986. Óperan fjallar um einmana söngkonu sem bíður eftir draumaprinsinum með mikilli örvæntingu og á sér stað að hausti á rómantísku rússnesku torgi.

 

Konan sem orðið hefur fyrir mörgum áföllum í einkalífinu á stefnumót við karlmann, sem er píanóleikari að atvinnu. Hún hefur átt farsælan feril sem söngkona, á peninga og vini en vantar í lífið það sem mestu skiptir – ástina.  Tónlistin í óperunni er blönduð af rómantík, nútíma- og kvikmyndatónlist sem gerir þessa óperu einstaka en hún er flutt á rússnesku.

 

Óperan hefur verið sýnd á Akureyri og Reykjavík og fengið mjög góða dóma gagnrýnenda og m.a. gaf Jón Hlöðver Áskelsson tónlistargagrýnandi Morgunblaðsins sýningunni fjórar stjörnur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir