Dominique Toussaint er nýr leikmaður Stólastúlkna í körfunni

Dominique Toussaint. MYND AF NETINU
Dominique Toussaint. MYND AF NETINU

Körfuknattleiksdeild Tindastóls hefur gengið frá ráðningu á bandarískum leikmanni fyrir kvennalið Stólanna. Hún heitir Dominique Toussaint og er 22 ára, 175sm á hæð, alhliða leikmaður sem getur leyst allar stöður á vellinum að sögn Árna Eggerts Harðarsonar þjálfara.

Samkvæmt upplýsingum Feykis var Dominique í byrjunarliðinu í þrjú ár í Virginia háskólanum sem spilar í ACC riðlinum sem er einn sá sterkasti í bandaríska háskólaboltanum. Á háskólaferlinum var hún með 10.7 stig, 3.6 fráköst, 3.2 stoðsendingar, og 1.1 stolinn bolta að meðaltali. Endaði ferilinn á topp 10 lista allra tíma hjá skólanum í stoðsendingum og þriggja stiga körfum, ásamt því að vera í topp 20 í skoruðum stigum. All-ACC Freshman Team (topp 5 nýliðar) á sínu fyrsta ári í skólanum.

Að sögn Árna Eggerts var hún í úrtaki fyrir U16, U17 og U18 landslið Bandaríkjanna en komst ekki í 12 manna liðið. Hún kemur frá New York og var einn besti leikmaðurinn þar í High School í mjög góðum skóla, Christ the King. Árið 2016 var hún High School leikmaður ársins í New York. 

„Við erum mjög spennt fyrir komu Dominique í Skagafjörðinn, fjölhæfni hennar og leikstíll á eftir að blandast vel inn í kjarnann sem við erum að byggja upp. Við berum miklar vonir til þess að hún hjálpi liðinu að taka næsta skref,“ segir Árni Eggert og bætir við: „Hún er umfram allt dugleg sem er nauðsynlegur eiginleiki til að spila fyrir Tindastól.“

Von er á frekari fréttum af kvennaliðinu bráðlega.

Hérna má sjá myndbrot úr leikjum með Dominique og ekki annað að sjá en að Stólastúlkur séu búnar að fá spennandi liðsstyrk fyrir veturinn í 1. deildinni > 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir