Doktor í fóðurfræði hesta
Sveinn Ragnarsson lektor við hestafræðideild Háskólans á Hólum varði þann 18. desember síðastliðinn doktorsritgerð sína við Sænska landbúnaðarháskólann (SLU) í Uppsölum með láði.
Ritgerðin sem ber titilinn Digestiblility and Metabolism in Icelandic Horses Fed Forage-only Diets greinir frá niðurstöðum rannsókna Sveins á fóðurnýtingu íslenska hestsins. Leiðbeinendur voru Jan Erik Lindberg prófessor og Anna Jansson dósent við SLU.
Ritgerðin fjallar um áhrif sláttutíma, fóðurmagns og hestakyns á meltanleika og efnaskipti í hestum. Meginniðurstöður sýndu fram á neikvætt samband milli sláttutíma og meltanleika gróffóðurs. Einnig hafði aukið fóðurmagn neikvæð áhrif á meltanleikann. Enginn munur var á meltingu íslenskra og Standardbred hesta en munur var á blóðefnum milli kynjanna. Viðhaldsþarfir íslenskra reiðhesta fyrir meltanlega orku og meltanlegt prótein reyndust sambærilegar við alþjóðleg viðmið.
Rannsóknir Sveins voru unnar við Háskólann á Hólum, nema ein, sem var samanburðarrannsókn gerð við The National Trotting School í Wången í Svíþjóð. Efnagreiningar voru unnar í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands og SLU.
Sjá nánar á vef Hólaskóla
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.