Davíð Már öruggur sigurvegari í Ljósmyndasamkeppni sjómanna 2023
Árleg Ljósmyndasamkeppni sjómanna, sem sjómannablaðið Víkingur stendur fyrir, fór fram í sumar og barst 101 mynd í keppnina frá ellefu sjómönnum. Það var Króksarinn Davíð Már Sigurðsson, sjómaður og ljósmyndari, sem varð í efstu tveimur sætunum í keppninni en hann er í áhöfn Drangeyjar SK2 sem FISK Seafood gerir út frá Sauðárkróki.
Sigurmyndin er nokkuð sérstök en þar er eins og Drangey einoki jarðarkringluna okkar en hafflöturinn er hringlaga, Drangey fyrir miðju og fuglar á himni. Davíð Már er ekki bara fær ljósmyndari heldur bráðlaginn við myndvinnsluforritin. Feykir spurði kappann hvaða tækni væri notuð við gerð sigurmyndarinnar.
„360° kvikmyndavél,“ var svarið.
„Dróni?“ spurði blaðamaðurinn og þóttist snjall.
„Nei,“ svaraði Davíð.
„Þetta segir mér nú ekki neitt og örugglega ekki lesendum Feykis heldur.“ sagði blaðamaður pínu spældur.
„Myndin er skjáskot úr myndbroti sem var tekin með 360° sýndarveruleikamyndavél Skottu kvikmyndafjelags,“ sagði ljósmyndarinn og var þá spurður hvar myndavélin væti staðsett – varla héngi hún í lausu lofti framan við togarann? „Ég veit ekki alveg hvernig ég get lýst þessu betur. Myndavélin er fremst á stefninu. Með hjálp Photoshop sérðu ekki þrífótinn og teipið.“
Að sjálfsögðu – ekki er allt sem sýnist. Bráðsnjöll mynd hjá Davíð Má og Feykir óskar honum til hamingju með öruggan sigur í keppninni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.