Dagur með Einari á Blönduósi á laugardagskvöldið
Það verður sannkölluð tónlistarveisla á Blönduósi laugardagskvöldið 22. júlí. Dagur Sigurðsson söngvari og gítarleikari og Einar Örn Jónsson píanóleikari, verða á nýjum tónleikastað í gamla bænum, Krúttinu á Hótel Blönduósi, og flytja bestu lög tónlistarsögunnar, smelli, hittara og bangera - kraftballöður og rokkslagara - íslenskt og útlenskt.
Við erum að tala um Bowie, Bítlana, Billy Joel, Bo, Queen, Gunna Þórðar, Elton, Magga Eiríks, Led Zeppelin, Eyfa, og svo framvegis og svo framvegis.
Dagur sló í gegn þegar hann sigraði Söngkeppni framhaldsskólanna. Hann var svo hársbreidd frá því að vinna Söngvakeppnina árið 2018 með laginu Í stormi. Dagur hefur á síðustu árum sungið sig inn í hjörtu Íslendinga, gefið út tónlist og sungið á fjölda stórtónleika.
Einar, sem alinn er upp á Blönduósi, hefur átt farsælan feril í poppinu og er helst þekktur fyrir hljómborðsleik með Í svörtum fötum. Hann er einnig forsprakki hljómsveitarinnar Löður sem hefur sent frá sér nýtt efni á síðustu misserum.
Krúttið er glæsilegur nýuppgerður tónleikasalur sem er hluti af mikilli uppbyggingu á gamla bænum á Blönduósi. Það hýsti lengi bakarí Blönduósinga, sem hét einmitt Krútt. Meðal annarra bygginga sem fengið hafa andlitslyftingu í gamla bænum eru hótelið og gamla kirkjan sem nú er gististaður rekinn af Hótel Blönduósi.
Miðasala fer fram hér á Tix.is: https://tix.is/is/event/15637/dagur-me-einari-singalong-tonleikar-i-kruttinu
/Fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.