Zetorinn hans Sigmars í Lindabæ
Það þekkja eflaust margir til hans Sigmars Jóhannssonar í Lindabæ í Skagafirði en hann hefur haft mikinn áhuga á dráttarvélum og búminjum um langa tíð og var hans fyrsta vél Farmal Cub dráttarvél sem fylgdi bæði sláttuvél og plógur.
Í framhaldi af því fór hann að safna og varðveita fleiri vélar sem endaði, eins og margir vita, á því að hann stofnaði Búminjasafnið Lindabæ þann 28. júní
2015. Það hefur að geyma margar uppgerðar vélar sem má segja að hafi verið eins manns rusl en er í dag annars manns fjársjóður. Hér fáum við að lesa um Zetor 3511 og við hvetjum alla, sem hafa áhuga á traktorum og öllu því tengdu, að kíkja á Búminjasafnið Lindabæ. Opnunartíminn í sumar verður alla daga frá 1. júní til 20. ágúst frá kl. 13-17.
Jón Guðmundur Guðmundsson á Hofi í Hjaltadal fékk þessa vél, Zetor 3511, nýja snemma vetrar 1971. Innflytjandi var Ístékk hf. Hún var með Sekura klæðningu á öryggisgrind enda keyrði Jón vélina alla leið úr Reykjavík og norður í Skagafjörð í snjó og misjöfnu veðri, hann mun hafa gist í Borgarfirðinum. Eftir lát Jóns eignaðist Hörður, sonur hans, vélina. Hann seldi hana seinna Leó Leóssyni, bónda á Laufskálum í Hjaltadal, og Sigmar fékk vélina hjá honum. Jón S. Jónsson í Ásgarði á Dalvík kom á safnið í Lindabæ sumarið 2017, hann var þá svo hrifinn af því hvað hún var heilleg að hann kom og sótti hana í janúarbyrjun 2018 og hóf að gera hana upp. Skipt var um allt í bremsum og ýmislegt fleira, þá lét hann sprauta búkinn á henni og kom boddíhlutum og felgum í sandblástur á Akureyri en Múlatindur á Ólafsfirði sá um sprautun. Það var svo í júlí 2018 sem Jón kom með vélina til baka en þá var hann að flytja til Vopnafjarðar. Þá var búið að sprauta búkinn og felgurnar og setja ný dekk undir hana. Það var svo Sigurður Baldursson í Varmahlíð sem hjálpaði Sigmari að klára verkið sem lauk í nóvember 2018.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.