Týndi snúbba sem fannst svo á öruggum stað
Kanínur eru fyrirtaks inni gæludýr, með frábæran persónuleika og geta verið mjög skemmtilegar. Þær eru líka mjög félagslyndar en þær þurfa líka sitt einkapláss en vilja þó alltaf vera nálægt fjölskyldunni því þær hafa ríka þörf fyrir samskipti og hreyfingu en þurfa einnig að hafa eitthvað við að vera.
Kanínur eru í eðli sínu mjög forvitnar skepnur sem finna sér leið að tölvuvírum, snúrum, húsgögnum, teppum og geta nagað og skemmt mikið í kringum sig. Pappakassi með tómum rúllum undan salernispappír eða annars konar pappírsvörur er gott dæmi um fyrirtaks leikfang fyrir kanínur.
Súsanna Guðlaug, dóttir Halldórs Gunnlaugssonar og Hildar Þóru Magnúsdóttur á Ríp 3 í Hegranesi, á eina kanínu sem hún skírði Snúbba og svarar hér nokkrum spurningum um þennan krúttlega loðbolta.
Hvernig eignaðist þú gæludýrið? Ég eignaðist Snúbba eftir að hafa óskað mér gæludýrs í langan tíma og verið dugleg að þrífa herbergið mitt. Hann kom til okkar fyrir ári síðan frá dýragarðinum Hraðastöðum í Mosfellsdal.
Hvað er skemmtilegast við gæludýrið þitt? Hvað hann er mjúkur og hress. Gaman að sjá hann skoppa um húsið hjá okkur hér á Ríp.
Hvað er erfiðast? Það er erfiðast að geta ekki gefið honum nægjanlega útiveru á veturna, en hann fær þó stundum að vera úti með hænunum og það líkar honum vel.
Ertu með einhverja sniðuga eða merkilega sögu af gæludýrinu? Einu sinni týndum við Snúbba. Við leituðum um allt hús en fundum hann hvergi. Svo þegar ég ætlaði út að leita og fór til að sækja skónna mína, þá fann ég hann liggjandi ofan í skónum mínum.
Feykir þakkar Súsönnu kærlega fyrir að taka þátt í gæludýraþættinum:)
Sigga sigga sigga
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.