Langar þig í nýja eldhúsinnréttingu?
Það að skipta um eldhúsinnréttingu getur verið mikið vesen og mjög kostnaðarsamt sem fáir nenna að vaða í nema með miklum undirbúningi og góðu skipulagi en það er hægt að fara ódýrari leiðir án þess að rífa allt út og tæma budduna. Skagfirðingurinn hún Guðrún Sonja Birgisdóttir flutti nýverið á Blönduós þar sem hún er að opna í byrjun júní bæði gistiheimilið Retro við Blöndubyggð 9 og veitingahúsið Retro sem verður staðsett á Aðalgötu 6 á Hótel Blöndu. En hún festi einnig kaup á íbúð þar í bæ og það fyrsta sem hún ákvað að gera var að mála og filma eldhúsinnréttinguna sína.
Eins og þið sjáið á myndunum þá tókst þetta með eindæmum vel hjá henni. Hún byrjaði á því að þrífa vel alla eldhúsinnréttinguna, pússaði smá, grunnaði og málaði svo með gráu Lady lakki. Á borðplötuna keypti hún filmu í Bauhaus með marmaramynstri og límdi á. Guðrún sagði að þetta hefði ekki tekið svo langan tíma að framkvæma og var eldhúsið tilbúið í sömu viku og þau fluttu inn.
Ég verð að viðurkenna að þetta lítur ótrúlega vel út hjá henni og er alveg greinilegt að hún er mikil smekkmanneskja. Kannski fáum við að sjá fyrir og eftir myndir af framkvæmdunum á gistihúsunum sem hún er á fullu í þessa dagana til að geta hafið rekstur, hver veit. En nú dauðlangar mig að taka mína eigin innréttingu í gegn og er hugsanlegt að þetta verði að einu helgarverkefni hjá mér í sumar þegar búið er að spá leiðinlegu veðri.
Takk kærlega fyrir að leyfa okkur að sjá eldhúsið þitt og gangi þér ótrúlega vel með nýja fyrirtækið Guðrún mín.
kveðja
Siggasiggasigga
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.