Hugleiðingar um ánamaðka
Ég fór út að skokka einn morguninn eftir góða rigninganótt á hlaupabrautinni á Króknum og á meðan er ýmislegt sem fer í gegnum hausinn á mér og datt ég í þann gír að velta því fyrir mér af hverju í ands.. ánamaðkar tækju upp á því að koma upp á yfirborðið um og eftir vætutíð... eru þeir haldnir sjálfsvígshugleiðingum, nei ég segi bara svona. Mér þykir þetta samt frekar undarlegt. Halda þeir kannski að grasið sé grænna hinumegin við hlaupabrautina. Ég ákvað því að kynna mér betur þessa frekar ógeðslegu og slímugu skordýrategund sem gerir lítið gagn annað en að vera fuglamatur eða hvað?
Ánamaðkar lifa í jarðveginum sem er nokkurs konar meltingarfæri gróðursins og ef það væri ekki fyrir starfsemi jarðvegsdýra væri ekki til raunverulegur jarðvegur. Ánamaðkar eru eitt af þeim jarðvegsdýrum sem hjálpa til við að auka frjósemi í jarðvegi og við verðum ekki vör við þá fyrr en við rótum í görðunum okkar á sumrin ásamt því að þeir verða á vegi okkar á göngustígum og stéttum eftir rigningardaga.
Á íslandi eru til minnsta kosti tíu tegundir af ánamöðkum og eru þessar fimm helstu: stóráni, taðáni, grááni, mosaáni, og svarðáni. Stóráni er stærsta tegundin og er stundum kallaður skoti og er eftirsóttur í beitu. Taðáni og grááni eru algengir í túnum og í görðum, og það eru þeir sem við sjáum á stéttum eftir vætutíð. Svo eru það mosaáni og svarðáni sem eru smávaxnir og finnast einkum í úthaga.
Ánamaðkar verða ekki langlífir en talið er að þeir verði ekki eldri en tveggja, þriggja ára. Þeir eru tvíkynja sem þýðir að þeir mynda bæði egg og sæði. Æxlunin fer yfirleitt fram niðri í moldinni en stóráni er sá eini sem æxlast uppi á yfirborðinu og þá að næturlagi. Æxlun ánamaðka fer fram þannig að tveir maðkar festast saman á neðra borði búksins þannig að framendarnir vísa í hvor í sína áttina. Ánamaðkar eru með svokölluð belti sem gefa frá sér slím sem mynda slímhólka utan um maðkana. Þegar þeir hafa skipst á sæðisfrumum losna ánamaðkarnir hvor frá öðrum. Slímhólkarnir færast smám saman fram af ánamöðkunum, egg og aðkomið sæði falla í hólkana sem lokast, þorna og mynda kúlulaga egghylki með seigu hýði. Egghylkið liggur svo eftir í moldinni og fer þroskunartími þess eftir hita- og rakastigi moldarinnar en hér á landi er það u.þ.b. eitt ár. Hver og einn maðkur getur framleitt allt að 50 egghylki á einu ári.
Hver hefur ekki prufað að toga í sundur ánamaðk til að skoða hvort hann lifi það af og viti menn báðir bútarnir halda áfram að liðast áfram og allir glaðir..... EN.... því miður þá er uppi sú kenning að það verði tveir ormar úr þessum eina en sú er ekki raunin. Ánamaðkar eru nefnilega tvískiptir, framendi og afturendi, og ef að ánamaðkur missir hluta af afturendanum þá getur framhlutinn vaxið og bætt tjónið en afturendinn einn og sér getur ekki lifað lengi, þannig að hættið að toga þá í sundur!
En þá að spurningunni minni með sjálfsvígshugleiðingarnar hjá þeim.... Málið er að þeir anda með húðinni og taka upp súrefni úr lofti og vatni. Í yfirborði húðarinnar eru kirtilfrumur sem gefa frá sér slím og halda henni rakri. Í miklum rigningum er líkt og fjöldaflótti brjótist út meðal ánamaðka og þeir skríða upp á yfirborðið í stórum hópum. Þetta gerist ekki vegna þess að þeir eru með sjálfsvígshugleiðingar eða eru að drukkna/kafna í vatnsmettuðum jarðveginum, heldur er líklegra að um sé að ræða róttæk viðbrögð vegna óvanalegra umhverfisaðstæðna. Ánamaðkar sem hafna á gangséttum ná oft ekki að skríða niður í jarðveginn eftir regnskúr áður en sólin kemur upp eða sólarljósið brýst fram úr skýjaþykkninu. Þeir drepast eftir skamma stund af þurrki og af því að þeir þola ekki útfjólubláa geisla sólarinnar. Það sem þeir eru sem sagt að gera er að þeir eru að skipta um búsvæði, leita sér að nýrri fæðu eða jafnvel að leita að nýjum maka, djöfuls... gredda er þetta alltaf, því í rigningunni verða þeir ekki fyrir uppþornun og árásum annarra dýra því fuglarnir eru ekki mikið á ferðinni þegar það rignir. Að sjálfsögðu „meikar“ þetta allt mikið „sens“ þegar maður spáir í það og ég þarf því ekki að hugsa út í þetta næst þegar ég verð vör við þessa furðulegu hegðun þeirra.
Góða helgi
Sigga sigga sigga
Mynd og heimildir sóttar í grein sem Hólmfríður Sigurðardóttur skrifaði í Náttúrufræðingnum, 2 tbl, árið 1994.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.