Hefur verið starfrækt óslitið síðan 1947

Dagný og Róbert við afgreiðsluboðið í Laugarmýri.
Dagný og Róbert við afgreiðsluboðið í Laugarmýri.

Smáframleiðendur á Norðurlandi vestra | Laugarmýri í Skagafirði

Einn af þeim framleiðendum sem hafa verið að bjóða upp á vörur sínar í bíl smáframleiðenda er Garðyrkjustöðin Laugarmýri og kannast eflaust margir við fallegu blómin þeirra sem prýða marga garðana á sumrin. En Laugarmýri er ekki bara þekkt fyrir blómin þau rækta margt fleira og má þar t.d. nefna góðu og safaríku gúrkurnar sem eru ómótstæðilegar í salatið eða bara sem snakk.

Þegar ég var lítil voru farnar ófáar ferðir í Laugarmýri yfir sumartímann því það þurfti að sjálfsögðu að fegra garðinn hennar mömmu og ekki þótti mér leiðinlegt að fara með. Það var auðvelt að gleyma sér við að skoða blóm út um allt og fylgjast með randaflugunum að verki. En svo átti ég leið á Laugarmýri fyrir nokkrum árum og þegar ég keyrði niður hlaðið helltust yfir mig gamlar minningar, því þar hafði lítið breyst, bæði lyktin og litadýrðin jafn falleg og áður.

Á Laugarmýri í Steinstaðhverfinu í Skagafirði hefur nefnilega verið starfrækt garðyrkjustöð óslitið frá árinu 1947. Stöðin er nú í eigu þriðja ættliðar og er rekið af Dagnýju Stefánsdóttur og eiginmanni hennar, Róberti Loga Jóhannessyni. Þrátt fyrir að stöðin sé smá í sniðum og húsakostur og öll aðstaða komin til ára sinna er úrvalið gríðar mikið. Stöðin ræktar og selur m.a. sumarblóm, fjölæringa, grænmeti, salat, kryddjurtir, trjáplöntur og runna en framleiðslan og úrvalið er eðlilega árstíðabundið. Dagný hefur um árabil ræktað og selt vínber, jarðarber og hindber og nú í sumar má einnig búast við brómberjum frá Laugarmýri.

Garðyrkjustöðin leggur mikið upp úr því að allt sem að ræktað er sé nýtt og hefur sú stefna leitt af sér margar skemmtilegar og girnilegar aukaafurðir. Þar má t.d. nefna grænkálssnakk, sólþurrkaða tómata, ýmiss konar pestó, þurrkuð krydd, sýróp, kryddolíur, sultur og súrsaðar gúrkur. Dagný selur afurðir garðyrkju-stöðvarinnar um allt vestanvert Norðurland, í verslunum á Sauðárkróki, Akureyri og víðar. Hún keyrir vörurnar sínar sjálf til kaupenda og hefur einnig boðið upp á vörur sínar á Facebooksíðu REKO á Norðurlandi vestra og í sölubíl smáframleiðanda ásamt netsölu á heimassíðu Biopol, vorusmidja.is. Þau eru einnig með Facebook-síðu undir heitinu Garðyrkjustöðin Laugarmýri.

Við mælum með að kíkja til þeirra og skoða allt sem þau að bjóða upp á. 

Sala sumablómanna hjá þeim hófst 21. maí en frá og með 27. maí er opið alla daga vikunnar frá kl. 13-18 nema á sunnudögum, þá er opið frá 13-16. 

Bíll smáframleiðenda verður á ferðinni á næstu dögum - hér að neðan má sjá auglýsingu sem birtist í Sjónhorni vikunnar

Verslum í heimabyggð!

Sigga sigga sigga

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir