Hátt í 15 ár að gera upp fyrsta bílinn
Samgöngusafnið í Stóragerði Skagafirði er staður þar sem margt rusl hefur orðið að fjársjóði en safnið, sem aldrei átti að verða safn, hefur nú verið starfrækt í 17 ár. Gunnar Kr. Þórðarson, stofnandi safnsins, sá að nokkuð ljóst væri að byggja þyrfti skemmu undir alla dýrgripina svo þeir yrðu ekki fyrir skemmdum, því mikill tími og peningar voru farnir í uppgerð á hinum ýmsu tækjum.
Hvatti þá sveitarstjórn Skagafjarðar, á þeim tíma, hann til þess að opna dyrnar fyrir gesti og gangandi sem og varð raunin þann 26. júní 2004. Þar sem mikill metnaður var kominn í Gunnar fyrir því að halda áfram að gera upp fleiri bíla og tæki þá sá hann fyrir sér að nota efri árin sín í að sinna sínu helsta áhugamáli. Gunnar lést úr MND sjúkdómnum í febrúar 2019 en í dag hafa eiginkona hans, börn og tengdabörn tekið við rekstrinum og er mikill þróttur í afkomendum hans að halda safninu gangandi í hans minningu með smá nýbreytni og nýjum gripum og vonandi stækkun á safninu í komandi framtíð.
Í þessum þætti af Eins manns rusl er annars fjarsóður langar Feyki að heyra um þann bíl sem er í raun kveikjan að öllu þessu batteríi sem safnið er í dag.
Fyrsti bíllinn sem Gunnar gerði upp er af gerðinni Ford F600 árgerð 1954 og er ástæðan fyrir valinu sú að faðir hans vann á sams konar Ford trukk þegar hann var ungur strákur. Þessir bílar voru mjög vinsælir vegavinnubílar því þeir voru með öflugri V8 toppventlavél. Í þessa uppgerð notaði Gunnar þrjár Ford bifreiðar sem fundust á Norðurlandi og tók hann yfirbygginguna með sér suður til að vinna í henni þar því hann rak bílaverkstæðið Bíltak með bróður sínum, Páli Hólm, á þeim tíma en uppgerðin byrjaði um 1980. Gunnar og fjölskylda fluttu svo norður á Sauðárkrók og var þá búið að byggja verkstæði í Stóragerði, sem stendur enn, og þar inni stóð Fordinn á meðan uppgerðin hélt áfram en með löngum hléum sökum þess að alltaf vantaði varahluti í verkið, þá var t.d mælaborðið flutt inn frá Bandaríkjunum. Uppgerðin tók þar að leiðandi langan tíma því ekki var hægt að byrja að setja bílinn saman fyrr en allt var komið. Þorvaldur á Sleitustöðum sá svo um að sprauta hann og var það gert á Sleitustöðum þar sem Gunnar lærði bifvélavirkjun. Þessi glæsilegi Ford var svo fyrsti bíllinn sem keyrði inn á safnið og fékk sitt stæði þegar safnið opnaði árið 2004.
Frá og með 23. ágúst verður eingöngu opið á safninu um helgar, laugardaga og sunnudaga, frá kl. 11-18 þar til lok september.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.