Bragðmikill kjúklingaréttur og klikkuð kókosbolluterta
Þegar kólnar svona í veðri þá langar mig helst til að skríða undir teppi upp í sófa og horfa á Netflix, þegar ég kem heim úr vinnunni á virkum dögum. Þá endar kvöldmaturinn yfirleitt með því að það er eitthvert snarl í matinn, krökkunum til mikillar gleði. En um helgar er annað upp á teningnum en þá nenni ég að brasa aðeins í eldhúsinu og þá er gott að eiga nokkrar góðar uppskriftir til að matreiða.
Hér kemur ein sem hefur verið í uppáhaldi hjá okkur lengi en við hjúin höfum mjög ólíkar skoðanir á hversu sterkur maturinn á að vera. Þegar þessi er matreiddur þá sleppi ég að setja chilimaukið því hann getur bætt því við eftir á hjá sér og allir sáttir. Þessa uppskrift fann ég á www.eldhussogur.is á sínum tíma.
Kjúklingaréttur í sterkari kantinum
900 g kjúklingur má vera bringur, lundir eða úrbeinuð læri
150 g beikon
1 rauðlaukur, saxaður smátt
3 hvítlauksrif, smátt söxuð eða pressuð
2-3 meðalstórar gulrætur, skornar í sneiðar
salt og pipar
1 dós sýrður rjómi, helst 36%
2 dl rjómi
1½ dl rifinn parmesanostur eða mozzarellaostur
½ msk. kjúklingakraftur
1 tsk. sambal oelek (chilimauk) má sleppa ef þú vilt ekki hafa sterkt
2-3 msk. sweet chili sósa – 1 msk ef þú vilt ekki hafa sterkt
1½-2 msk. sojasósa
hnefafylli söxuð steinselja – má sleppa
Aðferð:
Beikonið skorið í bita og steikt á pönnu þar til það verður stökkt. Beikonið veitt af pönnunni en fitan skilin eftir. Kjúklingurinn er skorinn í bita, saltaður og pipraður og steiktur, ásamt rauðlauknum, upp úr beikonfitunni (meiri fitu bætt við ef með þarf) þar til hann hefur náð góðri steikingarhúð. Þá er gulrótunm og hvítlauk bætt út á pönnuna. Því næst er sýrður rjómi, rjómi, parmesan/mosarella osti, kjúklingakrafti, chilimauki, sweet chili sósu og sojasósu bætt út á pönnuna ásamt beikoninu og allt látið malla í u.þ.b. tíu mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Undir lokin er steinseljunni bætt út í kjúklingaréttinn. Borið fram með hrísgrjónum og góðu salati.
Þessa hnallþóru hefur mig langað til að gera síðan ég sá hana á Facebook-síðunni hjá Þjóðlegt með kaffinu í sumar en aldrei gefið mér tíma til að setja í en markmið helgarinnar er að baka þessa... ekki spurning því ég held hún sé guðdómlega góð.
KÓKOSBOLLUTERTA
Svamptertubotn
4 egg
2 dl sykur
4 msk hveiti
4 msk kartöflumjöl
Egg og sykur þeytt vel saman þar til blandan er létt og ljós. Hveiti og kartöflumjöl sigtað út í og hrært varlega saman við með sleif. Sett í eitt smurt form og bakað við 175°C í u.þ.b. 25 mínútur. Kælið botninn.
Púðursykursmarengs
2 eggjahvítur
100 g púðursykur
30 g sykur
Þeytið eggjahvítur þar til þær byrja að freyða og bætið þá sykrinum saman við. Þeytið þar til sykurinn er vel uppleystur og deigið stíft. Teiknið hring á bökunarpappír (24 cm) og og smyrjið deiginu jafnt á hringinn. Bakið við 150°C í 40-50 mínútur. Látið kólna.
Samsetning
1 svamptertubotn
1 púðursykurmarengs
hálfdós niðursoðnar perur
1 banani
4 kókós bollur
½ l þeyttur rjómi
50 g suðusúkkulaði, brætt
kakóduft
jarðarber
Setjið svampbotninn á tertudisk og vætið í honum með perusafanum. Skerið niður banana og perur og raðið ofan á svampbotninn (geymið einn peruhelming til skreytingar). Setjið um þriðjung af þeytta rjómanum jafnt yfir ávextina. Kókosbollurnar eru skornar í tvennt eða þrennt, raðað jafnt ofan á og aftur settur rjómi þar yfir. Marengsbotninn er lagður ofan á og afgangurinn af þeytta rjómanum er settur ofan á og smurt á hliðarnar. Sigtið smá kakóduft yfir tertuna og skreytið hana með bræddu súkkulaði (má ekki vera of heitt), jarðarberjum og perum.
Er ekki tilvalið að skella í þessar uppskriftir um helgina?
Sigga sigga sigga
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.