Allir með sitt hlutverk í framleiðslunni

Þröstur, Kolbrún Birna Jökulrós og Hallgerður Harpa Vetrarrós á Local Food Festival í
Hofi á Akureyri. MYNDIR AÐSENDAR
Þröstur, Kolbrún Birna Jökulrós og Hallgerður Harpa Vetrarrós á Local Food Festival í Hofi á Akureyri. MYNDIR AÐSENDAR

Hjónin Ragnheiður Lára Brynjólfsdóttir og Þröstur Heiðar Erlingsson búa á bænum Birkihlíð í Skagafirði. Þar reka þau Birkihlíð kjötvinnslu – Brjáluðu gimbrina, í gamla fjósinu sínu, og var það nafn til sem skírskotun til ástandsins í sauðfjárræktinni. Þar eru þau búin að koma sér upp fullbúinni kjötvinnslu og eru að vinna í því að klára aðstöðu þar við hliðina þar sem verður löggilt eldhús. Einnig eru þau að vinna í því að koma sér upp lítilli búð fyrir framan kjötvinnsluna því fólk sækir mjög í að heimsækja þau til að kaupa sér kjöt í matinn.

Allt kjöt sem hjónin Ragnheiður og Þröstur vinna úr er fætt og alið upp á býlinu. Þau eru með mjólkur- og nautakjötsframleiðslu og einnig með um 200 kindur. Þau taka allt lamba- og ærkjöt heim og nokkra tugi af nautum en stefnan þeirra er að ná að vinna og selja allt kjöt sjálf sem þau framleiða. „Eins höfum við aðeins verið að taka heim kvígu- og kýrkjöt og hvetja fólk til að prófa það og það hefur gengið ótrúlega vel,“ segir Ragnheiður.

„Við höfum lagt mikla áherslu á að hitta okkar viðskiptavini og því höfum ekki ennþá viljað fara með vörurnar okkar í verslanir en erum þó með nokkrar vörur í netversluninni hjá BioPol og í Smáframleiðendabílnum enda er það alveg magnað framtak og mjög vel heppnað í alla staði. Abba sem vinnur á bílnum er alveg einstök og vinnur sína vinnu mjög vel. Þröstur hefur verið mjög duglegur að fara á bændamarkaðinn á Hofsósi ásamt tveimur elstu börnunum okkar sem og aðra markaði. Síðan höfum við verið að keyra norður og suður með kjöt og eins höfum við verið að keyra út í Skagafirði og á Blönduósi þegar pantanir berast. Í Covidinu í fyrra brunuðum við á rafmagnsbílnum okkar um fjörðinn fagra og vorum með það sem við kölluðum stólaafhendingar sem heppnaðist mjög vel. Nú erum við byrjuð að bjóða upp á það aftur þar sem veiran er komin á fulla ferð enn og aftur. Einnig höfum við verið með í Reko Norðurland og erum með síðu á andlitsbókinni, Birkihlíð kjötvinnsla.“ Síðastliðin tvö og hálft ár hafa þau verið að berjast fyrir því að sauðfjárbændur fái að slátra heima eða með öðrum orðum að fá að vera með svokallað örsláturhús heima á bæjum. Nú virðist sjá fyrir endann á þeirri baráttu en verið er að semja reglur fyrir þessa starfsemi sem áætlað er að megi hefjast í haust.

„Við hjón eigum sex börn og hafa þau öll verið mjög dugleg að hjálpa okkur á ýmsan hátt og um að gera að leyfa börnunum að vera með því þá upplifa þau að þau séu að gera gagn og það hafa komið ansi skemmtilegar og skondnar samverustundir upp við hina ýmsu vinnu. Sá yngsti, sem er sjö ára hefur t.d. það hlutverk að merkja kassana og sá næst yngsti að setja þá saman. Nú býr elsta dóttirin úti í Svíþjóð, tímabundið, og hún fékk það hlutverk með sér að hjálpa til með reikningana, þannig að þó að þau flýi land þá losna þau ekkert frá brasinu í foreldrum sínum,“ segir Ragnheiður að lokum.

Feykir fékk þau til að koma með uppskrift þar sem kjötið frá þeim er í aðalhlutverki og mælum við með að prufa þennan rétt.

Bógsteik Brjáluðu frá Birkihlíð kjötvinnslu
    Ein bógsteik frá Birkihlíð kjötvinnslu
    4 msk hvítlauksolía
    salt og pipar
    4 – 6 stilkar ferskt rósmarin
    Lambakrydd frá Prima eftir smekk
    1 dl vatn

Aðferð: Setjið bógsteikina í' steikingarpott og smyrjið hana vel með hvítlauksolíunni allan hringinn. Kryddið með salti og pipar og að lokum Lambakryddi eftir smekk. Setjið inn í ofn á um 180°C í um 2 klst. með lokið á. Þegar um 30 mínútur eru eftir af tímanum skal bæta rósmaríninu í steikingarpottinn og klára tímann. Hellið soðinu í botninum í gegnum sigti í pott og gerið góða brúna sósu úr soðinu. Berið fram með ofnsteiktu grænmeti frá Breiðargerði.

Verslum í heimabyggð!

Sigga sigga sigga 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir