Byggðakvóti Skagastrandar skerðist um 115 tonn
Á vef Sveitarfélagsins Skagastrandar segir í fréttaskoti, sem var birt 24. janúar, að mikil vonbrigði hafi verið þegar Matvælaráðuneytið birti úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2024-2025 en úthlutun til sveitarfélagsins fer úr 170 tonnum í 55 tonn vegna fiskveiðiársins 2023-2024 í nýjustu úthlutun sem samsvarar 115 tonna skerðingu. Þegar úthlutanir fyrir önnur bæjarfélög á Norðurland vestra eru skoðuð þá fær Hvammstangi(130 tonn), Blönduós(15 tonn), Sauðárkrókur(130 tonn) og Hofsós(15 tonn) sömu úthlutun og í fyrra og er því Skagaströnd eina bæjarfélagið sem verður fyrir skerðingu á svæðinu.
Sveitarfélagið óskaði skýringa frá ráðuneytinu vegna málsins og fékk þau svör að flækjustig væri verulegt í útreikningum svk. ákvæðum reglugerðar nr. 818/2024. Lagðar eru til grundvallar upplýsingar frá Fiskistofu varðandi afla, aflaheimildir og vinnslu. Í ár er minna til skiptanna sbr. ráðstöfun í 5. gr. reglugerðar nr. 817/2024, um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2024/2025 og almanaksárið 2025. Samdráttur í heildarúthlutun er um 1.022 þorskígildistonn milli ára og verða breytingar á magni úthlutaðra þorskígildistonna til einstakra byggðarlaga í samræmi við það. Þessi samdráttur hefur áhrif á flest byggðarlög en þó er almennt að reiknanleg skerðing er meiri í stærri byggðarlögum. Af þeim 3.807 þorskígildistonnum sem til ráðstöfunar koma eru 517 þorskígildistonn sem hreyfast til á grundvelli ákvæða A-liðar 2. gr. um leiðréttingu og óbreytta stöðu í byggðarlagi og 3.290 þorskígildistonnum er ráðstafað skv. reiknireglum A-liðar, B-liðar og C-liðar. Skv. reiknireglum (punktakerfi) reglugerðar nr. 818/2024, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga þá hefði ekki komið byggðakvóti til úthlutunar til Skagastrandar án leiðréttingar. Því er gerð leiðrétting til hækkunar í tilviki Skagastrandar. Þegar viðmiðunarár er valið þá er valið það viðmiðunarár sem kemur hagstæðast út fyrir byggðarlagið hverju sinni og getur viðmiðunarárið því breyst með hliðsjón af útreikningum sbr. reglugerðina. Það sem flækir einnig málið er að Skagaströnd er byggðarlag með yfir 400 íbúum og þá eiga ekki við sömu reglur varðandi skerðingar og í smærri byggðarlögum. Leiðir þetta til þeirrar niðurstöðu sem birt hefur verið að sinni.
Áhugasamir geta kynnt sér efni umræddra reglugerða hér:
Hér fyrir neðan má sjá úthlutunina á Norðurlandi vestra en hér er hægt að sjá fyrir allt landið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.