Breytt fyrirkomulag sorphirðu
Á næstunni hefst flokkun úrgangs í Sveitarfélaginu Skagafirði, samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar. Byrjað verður á þéttbýlisstöðunum, Sauðárkróki, Hofsósi, Hólum og Varmahlíð. Vonandi verður þess ekki langt að bíða að flokkunin nái einnig til sveitanna. Sveitarfélagið er með samning við ÓK gámaþjónustu sem sér um sorphirðuna.
Umhverfis- og samgöngunefnd sveitarfélagsins hefur lengi unnið að því að sorphirða og urðun verði umhverfisvænni en verið hefur. Urðunarsvæðið á Skarðsmóum er barn síns tíma og uppfyllir á engan hátt þær kröfur sem nú eru gerðar. Eins og vitað er hefur um langan tíma staðið yfir leit að hentugum stað fyrir sorpurðun til framtíðar. Allt bendir til þess að framtíðarurðunarstaður okkar verði við Sölvabakka, skammt frá Blönduósi en landið við Sölvbakka þykir henta mjög vel til urðunar. Stefnt er að því að það svæði verði tekið í notkun á þessu ári. Sveitarfélagið Skagafjörður er, ásamt sveitarfélögunum í Austur-Húnavatnssýslu, aðili að byggðasamlaginu Norðurá, sem stendur að uppbyggingunni við Sölvabakka. Vegna aukinna krafna og fjarlægðar verður mun dýrara að urða sorp vestur á Sölvabakka og því skiptir miklu máli að flokka úrganginn sem mest. Þannig má minnka það magn sem fer til urðunar, spara urðunarkostnað og lengja nýtingartíma urðunarstaðarins.
Markmið flokkunar er að minnka það magn úrgangs sem fer til endanlegrar förgunar um allt að 80% og stuðla að því að endurvinnsla og eða endurnýting úrgangs verði sem mest. Reyndar er nákvæm flokkun úrgangs forsenda þess.
Áætlað er að 13-15 tonn af lífrænum úrgangi myndist á mánuði á þéttbýlisstöðunum í Skagafirði. Lífræni úrgangurinn sem safnast fer í vinnslu til Jarðgerðar ehf á Sauðárkróki og er breytt í moltu (jarðvegsbæti). Fyrirtækið hefur starfað í rúm 2 ár og góð reynsla er komin á starfsemina. Sveitarfélagið hefur nýtt moltuna undir þökur og við gróðursetningu.
Hvert heimili skal hafa tvær sorptunnur, 240 lítra plasttunnur, önnur (grá/svört, margir hafa slíka tunnu nú þegar) fyrir óendurnýtanlegt sorp til urðunar. Í hana verður sett 35 lítra brúnt hólf fyrir lífrænan úrgang. Hin tunnan (græn) er ætluð fyrir flokkaðan úrgang til endurvinnslu, t.d. plastumbúðir, fernur og dagblöð. Húsráðandi þarf sjálfur að útvega sér gráu tunnuna en þá grænu útvegar sveitarfélagið. Hólfið í gráu tunnuna útvegar sveitarfélagið einnig ásamt boxi fyrir lífrænan úrgang.
Þeir sem eiga ekki gráar tunnur geta fengið þær hjá ÓK gámaþjónustu. Þar er einnig hægt að fá veggfestingar fyrir tunnurnar.
Heimilt er að íbúar í fjölbýlis-, rað- og parhúsum taki sig saman um sorpílát. Beiðni um það skal komið á framfæri við ÓK gámaþjónustu.
Vakin er athygli á því að sorptunnur þurfa að vera staðsettar þannig að aðgangur að þeim sé góður og auðvelt að fara með þær til losunar. Festingar á tunnunum þurfa að vera þannig að létt verk sé að losa þær og festa aftur.
Á næstunni verður bæklingi um flokkun úrgangs dreift í hús. Í kjölfar þess verða tunnurnar afhentar íbúum. Einnig verður boðið upp á kynningarfundi og þeir auglýstir þegar þar að kemur. Á vefsíðum sveitarfélagsins og Flokku ehf verða upplýsingar um flokkunina og hægt að senda inn fyrirspurnir og svörin svo birt þar.
Í kjölfar opnunar Flokku ehf hafa margir íbúar sveitarfélagsins tekið upp flokkun úrgangs og kunna vel til verka enda skiptir áhugi og jákvætt viðhorf íbúanna öllu máli ef vel á að takast til. Ég treysti því að við leggjumst öll á eitt svo að þetta mikilvæga verkefni, sem flokkunin er, nái fram að ganga og Skagafjörður verði í fararbroddi á landsvísu í þessum málum. Það hæfir okkar fagra héraði.
Þórdís Friðbjörnsdóttir
Formaður umhverfis- og samgöngunefndar
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.