Bóndadagurinn 25. janúar og konudagur 24. febrúar

Einhver misskilningur hefur átt sér stað varðandi bóndadag ársins 2019 sem jafnframt er fyrsti dagur þorra og konudagsins sem er fyrsti dagur góu og eru því mörg dagatölin fyrir það ár röng að því leyti. Þar sem bóndadagurinn 2018 var þann 19. janúar var auðveldlega hægt að álykta að hann væri þann 18. næst en svo einfalt er það ekki.

Þorri hefst alltaf á föstudegi í 13. viku vetrar á bilinu 19. til 25. janúar og því færist hann til 25. janúar 2019. Það sama gildir um konudaginn sem ætíð er sunnudaginn í 18. viku vetrar á milli 18. og 24. febrúar sem einmitt er konudagurinn ársins 2019.

Þessi leiðu mistök áttu sér stað hjá mörgum en sagt er frá því á Mbl.is að á netinu og einhverjum prentuðum dagbókum sé að finna rangar upplýsingar um það hvenær bóndadagur er á næsta ári. Í aðsendri grein í Morgunblaðinu 8. desember segja Þorsteinn Sæmundsson og Gunnlaugur Björnsson, umsjónarmenn almanaksins, að þeir hafi að undanförnu margsinnis verið spurðir um það, bæði símleiðis og með tölvupósti, hvenær bóndadagurinn verði á næsta ári.

Því miður er þessa villu einnig að finna í dagatölum sem Nýprent hefur prentað fyrir Skíðadeild Tindastóls og Kaupfélag Skagfirðinga og eru handhafar þeirra beðnir um að breyta þessu hið snarasta

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir