Bókun K – lista Skagafjarðar vegna afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð árið 2015
Sú fjárhagsáætlun sem nú liggur hér fyrir til samþykktar í sveitarstjórn er ekki áætlun mikilla breytinga þrátt fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor og nýjan meirihluta Framsóknar með aðkomu Sjálfstæðisflokks, þó má sjá merki um kosningaloforð í framkvæmdum. Við í K lista gagnrýnum gefnar væntingar um fjölnotaíþróttahús á Sauðárkróki, en setja á fjármagn í hönnun og kostnaðarmat á næsta ári. Ákvarðanir um nýframkvæmdir á alltaf að taka af yfirvegun og hafa forgangsröðun skýra.
Hvað fræðslumálin varða þá er stefnan tekin á að leikskólinn á Hofsósi verði færður í húsnæði grunnskólans og að tónlistaskólinn á Sauðárkróki flyti í nýtt húsnæði við Árskóla. Því miður er þess ekki að merkja í áætluninni að breytingar verði varðandi húsnæðismál leikskólans í Varmahlíð.
K – listinn telur gangrýnivert að ekki er gert ráð fyrir nægilegu fjármagni til að ráðast í endurbætur á Varmahlíðarskóla og breytingar á húsnæðismálum leikskólans Birkilundar.
Helsti áhættuþátturinn í fjárhagsáætlun meirihlutans er sú óvissa sem ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks boðar s.s. með breytingar og niðurskurð í mennta- og heilbrigðismálum, breytingar á högum langtímaatvinnulausra og breytingar í skattamálum. Breytingarnar geta augljóslega komið harkalega niður á fjárhag sveitarfélagsins og valda sömuleiðis óstöðugleika og óvissu meðal íbúa.
K – listinn gagnrýnir og er á móti gjaldskrárhækkunum í leik- og heilsdagsskóla sem og fæðishækkanir í leik- og grunnskólum. Þrátt fyrir gangrýni á ákveðna þætti í fjárhagsáætluninni er hægt að vera sammála í veigamestu atriðum og því tekur K- listinn ákvörðun um að sitja hjá en ekki greiða atkvæði gegn fjárhagsáætluninni.
Fjárhagsáætlun er ekki bara rammi um útgjöld og tekjur, heldur er hún stefna um þjónustu og framkvæmdir og leggur línurnar fyrir það öryggi sem börn og fjölskyldur ásamt fyrirtækjum í sveitarfélaginu búa við næsta árið.
Ef á að uppfylla réttmætar væningar íbúa um þjónustu og bætta aðstöðu þá er það forgangsverkefni að snúa við neikvæðri íbúaþróun og stuðla að fjölgun íbúa og atvinnutækifæra. Því miður sér K-listin ekki merki þess í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2015.
Starfsfólki sveitarfélagsins eru færðar þakkir fyrir fyrir góða og árangurríka vinnu við að ná fram sparnaði og auknu hagræði í rekstri.
Ég óska öllum íbúum sveitarfélagsins gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, fulltrúi K – lista Skagafjarðar
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.