Bloggið hans Jóns

Gísli Gunnarsson

Það er ekki laust við að ég vorkenni Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hann er í stjórnmálaflokki sem fékk þúsundir atkvæða í seinustu kosningum vegna andstöðu sinnar við inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Strax eftir kosningar tók flokkurinn u-beyju í þeirri stefnu og sótti um aðild að ESB! Segja reyndar að þrátt fyrir aðildarumsókn séu þeir á móti ESB! Er hægt að skilja þetta? Samt greiddi flokkurinn, ásamt Samfylkingu, atkvæði gegn tillögu sem borin var upp á Alþingu þess efnis að íslenska þjóðin fái að greiða atkvæði um væntanlegan samning um inngöngu Íslands í ESB. Það virðist reyndar hafa farið framhjá mörgum í ESB-umræðunni.

Í bloggi sínu fjallar Jón um Gallup-könnunina sem sýnir að 6 af hverjum 10 Íslendingum eru á móti ESB og meirihlutinn vildi ekki sækja um aðild. Hann tekur undir með þeim sem finnst margt brýnna fyrir stjórnsýsluna að gera um þessar mundir en að þreyta Evruprófið. Jón segir reyndar að "tugir manna sitji kófsveitt við að svara löngum spurningarlistum frá Evrópusambandinu." Ég skil vel svekkelsi Jóns, þar sem hann stóð á móti þessu. En hver ber ábyrgð á þessari ESB-umsókn? Það er ríkisstjórnin sem Jón Bjarnason er ráðherra í. Vegna andstöðu Jóns er honum reyndar ýtt til hliðar í ESB umræðunni og menntamálaráðherra færð að borðinu. Ætli ríkisstjórnin telji að sá málaflokkur verði snúnari í aðildarviðræðunum en sjávarútvegs- og landbúnaðarmál?

Í bloggi sínu óskar Jón vinstri meirihlutanum á Noregi til hamingju með kosningasigurinn. Hann getur þess ekki að sósíalski vinstriflokkurinn sem er systurflokkur VG tapaði miklu fylgi og hefur nú aðeins 11 þingmenn í stað 15. Þar fer fyrir vinkona Steingríms, Kristín Halvorsen, sem hefur ekki verið að vanda Íslendingum kveðjurnar.
Af vinstriflokkunum var það verkamannaflokkurinn undir forystu Jens Stoltenberg sem sigraði. Jón fagnar því að umsókn um aðild að ESB er ekki á dagskrá í Noregi!!

Eftir að hafa lesið bloggið hans Jóns er ekki annað að sjá, en að hann sé í vitlausum flokki. Hann tilheyrir flokki þar sem umsókn um ESB aðild er ekki á dagskrá, nema að þjóðin vilji það. Hann tilheyrir flokki þar sem hin gömlu góðu gildi eru endurvakin, þar sem frelsi einstaklingsins er viðurkennt innan eðlilegra marka, þar sem verkafólk, bændur og sjómenn fá að njóta vinnu sinnar, þar sem öryggisnetið er fyrir þá sem á því þurfa að halda, þar sem stétt er með stétt.

En hann er í flokki þar sem sótt er um aðild að ESB. Hann er í flokki sem þvælist fyrir atvinnuppbyggingu á landsbyggðinni. Hann starfar með flokki sem unnið hefur gegn íslenskum landbúnaði. Hann er í ríkisstjórn þar sem forystumenn flokkanna virðast ávallt taka afstöðu með útlenskum. T.d. var furðulegt að sjá og heyra viðbrögð þeirra við andsvari nýlenduherranna við icesafe-fyrirvörum Alþingis, sem átti að pukrast með í bakherbergjum.

Er Jón að koma heim?

Gísli Gunnarsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir