Bleika slaufan í tíunda sinn hérlendis
Bleika slaufan, söfnunar- og árvekniátak Krabbameinsfélags Íslands (KÍ), hófst formlega í dag, 1. október 2009, og hefur félagið sett sér það markmið að selja 45 þúsund slaufur fram til 15. október þegar slaufusölunni lýkur.
Þetta er jafnframt í tíunda sinn sem bleika slaufan er seld hérlendis en sjaldan hefur verið meiri þörf á að styðja við starfsemi Krabbameinsfélagsins en nú. Allur ágóði af sölu bleiku slaufunnar fer að þessu sinni til leitarstarfs KÍ. Slaufan í ár er hönnuð af Sif Jakobs, sem hlotið hefur alþjóðlega viðurkenningu fyrir skartgripahönnun sína. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra veitti fyrstu slaufunni í söfnunarátakinu viðtöku.
Tíu ár eru frá því að árveknisátaki um brjóstakrabbamein var hleypt af stokkunum hérlendis með sölu á bleiku slaufunni og hefur það vaxið og dafnað með hverju árinu sem líður.
,,Sala á bleiku slaufunni gekk einstaklega vel í fyrra þrátt fyrir efnahagshrunið. Þá seldum við ríflega 40 þúsund slaufur sem gerði okkur kleift að ljúka greiðslu á nýjum, stafrænum leitarbúnaði fyrir Leitarstöðina og færa alla skráningu yfir á rafrænt form. Í ár ætlum við að gera enn betur og selja 45.000 slaufur og nú rennur allur ágóði af sölu bleiku slaufunnar beint til leitarstarfsins,“ segir Guðrún Agnarsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélags Íslands.
Leitarstarfið þarf stuðning
Í kjölfar efnahagshrunsins síðastliðið haust varð fljótlega ljóst að ekki fengist nægilegt rekstrarfé til leitarstarfs Krabbameinsfélagsins og því var nauðsynlegt að grípa til ýmissa hagræðingaraðgerða.
,,Þrátt fyrir ýmsa hagræðingu í rekstri höfum við lagt okkur fram við að skerða ekki þá þjónustu sem skjólstæðingar Krabbameinsfélagsins þurfa á að halda. Um 35 þúsund konur nýta sér þjónustu Leitarstöðvarinnar á ári hverju og hún á ríkan þátt í þeim yfirburðaárangri sem Íslendingar hafa náð í baráttunni við legháls- og brjóstakrabbamein. Það eru engar ýkjur að lífslíkur íslenskra kvenna sem greinast með brjóstakrabbamein eru þær bestu í heimi," segir Guðrún og hvetur Íslendinga til að standa saman og leggja söfnunarátakinu lið.
Falleg og fjölbreytt hönnun
Sif Jakobs fékk þann heiður að hanna bleiku slaufuna í ár. Hún er þekktur gullsmiður og skartgripahönnuður, eigandi skartgripafyrirtækisins SIF JAKOBS JEWELLERY, og hefur hlotið viðurkenningar fyrir hönnun sína, bæði heima og erlendis.
„Það er mér mikill heiður að taka þátt í þessu verkefni og leggja þannig mitt af mörkum til að vekja fólk til vitundar um brjóstakrabbamein með hönnun á fallegum, kvenlegum og eigulegum skartgrip sem hentar konum við öll tækifæri. Brjóstakrabbamein er eitthvað sem snertir alla, beint eða óbeint,” segir Sif sem, auk hinnar hefðbundu nælu, hefur einnig hannað hálsmen og eyrnalokka með bleiku slaufunni til að koma til móts við þarfir þeirra sem ganga ekki með nælu af ýmsum ástæðum.
Meira er vandað til hálsmensins og eyrnalokkanna sem eru úr silfri með hvítagullslagningu og Zirconia steinum. „Ég valdi að hafa skartið stílhreint og klassískt með fallegum ljósbleikum steinum, þar sem bleiki liturinn er ekki yfirgnæfandi en ég næ samt fram bleikum áhrifum,“ segir Sif sem hefur einnig hannað sérstakar öskjur undir skartgripina. „Ég legg mikið upp úr því að skapa heildarumgjörð um verkin mín, bæði bleiku slaufuna og annað skart, allt frá umbúðum, uppsetningu, bæklingum og skartinu sjálfu.“
Söluaðilar bleiku slaufunnar
Bleika slaufan kostar aðeins 1.000 krónur, sem er sama verð og í fyrra, og verður hún til sölu dagana 1.-15. október hjá eftirtöldum söluaðilum sem selja slaufuna án álagningar.
Apótek:
Apótekarinn, Apótekið, Lyf og heilsa, Lyfja, Reykjavíkurapótek og Lyfjaval.
Verslanir og afgreiðslustöðvar:
Frumherji, Pósturinn, Eirberg, Eymundsson, Penninn, Nóatún, Þín verslun (Miðbúðin og Melabúðin) og Samkaup (Strax, Úrval, Nettó, Kaskó og Hyrnan).
Leigubifreiðar:
Hreyfill.
Kaffihús:
Kaffiheimur, Kaffitár og Te & kaffi.
Dreifingaraðilar:
Margt Smátt (sími 585-3500) og Parlogis(sími 5900-200).
Eyrnalokkarnir og hálsmenið verða einungis til sölu hjá Krabbameinsfélaginu í Skógarhlíð 8, í Saga Boutique og hjá söluaðilum Sif Jakobs á Íslandi sem eru: Verslanir Leonard í Kringlunni, Smáralind og Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Halldór Ólafsson á Akureyri og 1919 Hótel. Eyrnalokkarnir kosta 9.500 krónur en hálsmenið 11.500 krónur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.