Bjarni Jónasson íþróttamaður ársins
Það var hinn sigursæli hestamaður úr Léttfeta, Bjarni Jónasson sem hreppti titilinn Íþróttamaður Skagafjarðar við hátíðlega athöfn í Húsi frítímans í gær. Fjöldi manns var viðstaddur athöfnina.
Í upphafi dagskrár var forráðamönnum íþróttafélaga eða deilda afhent umslag sem innihélt peninga sem er afrakstur Unglingalandsmóts sem haldið var á Sauðárkróki í sumar. Þegar saman er tekið telur upphæðin nokkrar milljónir króna.
Fjöldi ungs og efnilegs íþróttafólks var veitt viðurkenning fyrir dugnað og árangur í sínum greinum en UMSS á fjöldan allan af hæfileikafólki í öllum greinum íþrótta. Þrennt fékk viðurkenningu fyrir það afrek að synda Drangeyjar og Grettissund. Sjá HÉR
En það var Bjarni Jónasson, félagi í hestamannafélaginu Léttfeta, sem bar sigur úr býtum í kjöri til Íþróttamanns Skagafjarðar en stóð hann sig með miklum ágætum á árinu 2009. Keppti hann og sýndi hross víða, bæði hérlendis og erlendis. Allsstaðar komst hann í úrslit og oftar en ekki hafði hann sigur.
Helstu afrek hans í íþróttagreinum hestamennskunnar voru eftirfarandi:
Héraðsmót UMSS 1.sæti tölt
Fjórðungsmót Vesturlands 3.sæti tölt og valinn knapi mótsins.
Íslandsmót í hestaíþróttum 6.sæti fjórgangur, 5.sæti tölt og 1.sæti sameiginlegur árangur í fjórgangsgreinum.
Fákaflug 1.sæti tölt.
Þýska skeiðmeistaramótið 1.sæti 250m. skeið.
Auk þessa var Bjarni með mjög góðan alhliða árangur og má þar helst nefna:
Sigraði bæði A og B flokk hjá Léttfeta, sigraði bæði A og B flokk á Fákaflugi.
Sigraði B flokk á Fjórungsmóti Vesturlands.
Hann var kjörinn kynbótaknapi Skagafjarðar og útnefndur sem einn af fimm bestu gæðingaknöpum Íslands 2009.
Einnig sýndi hann hryssu í hæsta hæfileikadóm í heiminum árið 2009.
Bjarni er íþróttamaður góður, algjör reglumaður og kemur ætið vel undirbúinn til keppni.
Hann er vel að titlinum Íþróttamaður Skagafjarðar kominn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.