Bjarki Már gerir tveggja ára samning við Stólana
Í gær skrifaði Bjarki Már Árnason undir tveggja ára samning við Tindastól en ásamt því að leika með m.fl. karla mun kappinn þjálfa m.fl. kvenna. Bjarki var valinn í lið ársins í 2. deildinni að loknu tímabili í sumar enda feykisterkur leikmaður og mikilvægt fyrir Stólana að tryggja sér krafta hans fyrir komandi tímabil.
Á heimasíðu Tindastóls segir: -Það er óþarfi að kynna Bjarka sérstaklega, hann er öllu knattspyrnuáhugafólki vel kunnur, hann hefur leikið með Tindastóli undanfarin ár og er fyrirliði liðsins. Það er gríðarlega mikilvægt að hafa hann í herbúðum Tindastóls sem féll í 3. deild á þessu tímabili en stefnir á ný í 2. deildina.
Bjarki mun þjálfa m.fl. kvenna en hann er menntaður þjálfari með KSÍ A (UEFA A) réttindi en hann hefur sótt þau bæði hér og erlendis.
Bjarki sagðist við undirritunina vera gríðarlega sáttur við að vera áfram í herbúðum Tindastóls og taka þátt í því verkefni með strákunum að koma liðinu beint upp í 2. deild. Einnig vonar hann að leikmenn haldi áfram með liðinu og komi tvíelfdir til leiks enda spennandi tímar framundan.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.