Bílalánin eru að sliga heimilin
Greiðsluvandi heimilanna er eitthvað sem kemur við alla og því datt mér í hug hvort það væri ekki eðlilegt að halda borgarafund um efnið hér á Sauðárkróki.Bæði til þess að draga fram í dagsljósið ólík sjónarmið og gefa Skagfirðingum kost á að funda með alþingismönnum og forystu stéttarfélaganna, segja frá sinni hlið á málinu og jafnvel að koma með tillögur til úrbóta, segir Þórarinn Sverrisson, formaður Öldunnar en félagið hefur boðað til borgarafundar um greiðsluvanda heimilanna næstkomandi þriðjudag.
Fundurinn verður haldinn í sal Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra þriðjudaginn 29. september og hefst kl.20:00.Frummælendur á fundinum verða Kristján Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambands Íslands ( SGS ) Þórólfur Matthíasson, prófessor, Gunnar Bragi Sveinsson, alþingismaður, Benedikt Stefánsson, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra og Guðbjartur Hannesson, alþingismaður/ formaður fjárlaganefndar
Pallborðsumræður verða að lokinni framsögu. Alþingismönnum kjördæmisins hefur sérstaklega verið boðið til fundarins.-Okkar sérstaða er sú að við búum á láglaunasvæði og því eru menn hér með lægri húsnæðislán en á móti kemur að hér eru það bílalánin sem eru að sliga heimilin. Sjálfur hef ég mikið velt fyrir mér lögmæti þeirra gjörninga sem bílalánin voru. Oftar en ekki var um leigusamninga að ræða og lántakandi þurfti ekki að fara í greiðslumat til þess að fá lánið og jafnvel þurfti fólk ekki einu sinni að greiða neitt út. Lánin voru talin tryggð þar sem sá sem fjármagnaði lánið gat alltaf komið og tekið bílinn ef ekki væri staðið við skuldbindingar. Í dag er staðan hins vegar sú að séu bílarnir teknir þá stendur eftir stór skuld því skuldin er komin svo langt, langt yfir heildarverðmæti bílsins. Leigunni er ekki hægt að segja upp og leigutakar sitja í súpunni. Komi það síðan til að bíllinn eyðileggjist þá tryggja tryggingafélögin, sem oft á tíðum eiga lánin, ekki nema verðmæti bílsins og eftir situr fólk með milljóna skuld en enga eign á móti. Þetta getur ekki verið eðlilegt, segir Þórarinn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.