BETRI SKIPAN STRANDVEIÐA

Nýtt frumvarp um breytta skipan strandveiða hefur nú verið lagt fram á Alþingi af þremur þingmönnum.  Markmið frumvarpsins er að jafna aðstöðu þeirra sem stunda strandveiðar, auka öryggi í veiðunum, stuðla að sjálfbærum og vistvænum fiskveiðum með hóflegri sókn á fiskimiðin, efla atvinnu og byggð í landinu og stuðla að jákvæðri samfélagsþróun. Flutningsmenn eru Ólína Þorvarðardóttir (1. flm.), Mörður Árnason og Skúli Helgason. 
     

Reynslan sýnir vankanta
 
Þegar strandveiðunum var komið á 2009 var boðað að fyrkomulag þeirra yrði endurmetið síðar í ljósi reynslunnar. Í þessum tilgangi hafa verið gerðar úttektir á strandveiðunum, samfélagslegum áhrifum þeirra og aflagæðum, sem sýna að strandveiðar eigi fullan rétt á sér sem valkostur við aðra útgerð.
 
Frá upphafi hefur engu að síður gætt óánægju með áhrifin af svæðaskiptingu strandveiðanna sem leitt hefur til ójafnvægis og mismununar. Þegar við fyrstu umræðu um málið sumarið 2009 var varað við svokölluðum „ólympískum veiðum“ sem beinni afleiðingu af þeirri ójöfnu aðstöðu sem bátar hafa til að sækja strandveiðiafla í hinum fjóru landshlutabundnu hafsvæðum sem lögin kveða á um. Svæðin fjögur henta misvel til strandveiða. Á svæði A eru gjöfulustu og nálægustu miðin. Flestir bátar sækja því um strandveiðileyfi á svæði A og þar er mesta sóknin, kappið og veiðiharkan, þá fáu daga sem smábátarnir geta sótt strandveiðiafla á því svæði. Þetta hefur valdið vaxandi áhyggjum af öryggi smábátasjómanna vegna stífrar sóknar í misjöfnum veðrum, einkanlega út af norðvesturhorni landsins. Bátar á öðrum svæðum eru mun færri, hafa rýmra svigrúm til þess að sækja sinn afla og fá auk þess meira í sinn hlut.
 
Aukið jafnræði

Strandveiðar eru hugsaðar sem jákvæður valkostur við aðra útgerð og atvinnu yfir sumartímann. Þeim er ætlað að auka jafnræði og nýliðun í sjávarútvegi á sjálfbærum og vistvænum forsendum. Þeim er ekki ætlað að ógna öryggi þeirra sem veiðarnar stunda, eða stuðla að misskiptingu með tilheyrandi hættu á slælegri aflameðferð  eða hroðvirknislegum veiðiaðferðum.

Vegna þessa leggjum við til að fyrir upphaf hvers strandveiðitímabilsins verði opnað fyrir umsóknir um strandveiðileyfi í 2 vikur. Þegar fyrir liggur hversu margir hafa sótt um og fengið strandveiðileyfi, verði heildaraflamagninu skipt jafnt á milli þeirra báta. Magnið getur verið breytilegt milli ára, eftir fjöldanum sem sækir um hverju sinni, enda ekki um varanlega úthlutun að ræða, eða hlutdeild sem  veitir hefðarrétt af neinu tagi og ekki má veðsetja, leigja eða selja þessar aflaheimildir. Ráðherra er hvenær sem er heimilt að stöðva veiðarnar eða færa báta til milli svæða eftir veiðiþoli svæða – enda gerir frumvarpið ráð fyrir að hvergi verði hvikað frá markmiðum umhverfis- og sjálfbærni sjónarmiða við framkvæmdina. 

Eignarhaldið
 
Í gildandi lögum er kveðið á um að þeim bátum sem nýttir eru til strandveiða sé ekki haldið að öðrum veiðum, enda er það yfirlýst markmið með strandveiðunum að „sem flestum sé gert mögulegt að stunda frjálsar handfæraveiðar með ströndinni á sjálfbæran hátt“. 

Reynslan sýnir þó að sterkir útgerðaraðilar hafa verið að gera út fjölda strandveiðibáta í samkeppni við smábátasjómenn sem eru einir að sínum veiðum, og sé jafnvel látið nægja að sýna fram á 1% eignarhald á báti til þess að uppfylla ákvæði laganna um að eigandi sé lögskráður á strandveiðibát. Þetta samræmist heldur ekki upphaflegum tilgangi laganna um strandveiðar og því leggjum við til að um raunverulegt eignarhald sé að ræða, þ.e. 51% eignarhlut.     
 
 
Reynslan af strandveiðunum. 

Háskólasetur Vestfjarða var fengið til þess að gera úttekt á framgangi og áhrifum strandveiðanna eftir fyrsta sumarið 2009. Úttektin sýndi að almenn ánægja var með samfélagsleg áhrif veiðanna og almennt fyrirkomulag þeirra ef undan er skilin gagnrýni sem fram kom á svæðaskiptinguna og áhrif hennar fyrir öryggi sjómanna, m.a. hjá Vaktstöð siglinga. Úttektin leiddi í ljós að byggðasjónarmið hefðu náð fram. Úttektin sýndi að 2/3 hlutar þeirra sem stunduðu strandveiðarnar voru sjómenn að atvinnu, 40% höfðu yfir aflahlutdeild að ráða, nýliðar voru 20% útgerðaraðila á strandveiðum og 60% aðspurðra töldu veiðarnar hafa fært þeim mikilvæga þekkingu og reynslu. 

Þá gerði Fiskistofa úttekt á gæðum strandveiðiafla sumarið 2011. Sú úttekt leiddi í ljós að strandveiðiflotinn kæmi vel út í samanburði við hina hefðbundnu dagróðrabáta og að ekki væri greinanlegur marktækur munur á milli þessara útgerðarflokka. Fram kom einnig að meðferð strandveiðiafla færi batnandi með aukinni reynslu þeirra sem veiðarnar stunda og gert var ráð fyrir að svo yrði enn frekar fyrir áhrif markaðarins vegna samhengis verðs og gæða. Þá var átak gert í fræðslu, mælingum og eftirliti hjá dagróðrabátum sumarið 2011 sem Fiskistofa telur mikilvægt að stjórnvöld tryggi að haldið verði áfram með. 
 
Í hnotskurn. 

Strandveiðar hafa sannað gildi sitt sem viðbót og valkostur í atvinnuflórunni. Þær hafa nú verið stundaðar í fjögur sumur, og á þeim tíma hefur gefist ráðrúm til þess að meta kosti og ágalla við framkvæmd veiðanna. En þó að veiðarnar hafi sannanlega stuðlað að jákvæðri samfélagsþróun í dreifðari byggðum sem hafa átt undir högg að sækja undanfarna áratugi er hverjum manni ljóst að framkvæmdina má bæta með því að draga úr áhættusókn og mismunun innan kerfisins og uppfylla þar með enn betur markmið löggjafans með þessum veiðum.  

Í  þeim tilgangi er frumvarp þetta nú lagt fyrir Alþingi.
 
Ólína Þorvarðardóttir, alþingismaður

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir