Beikonvafinn þorskur og eðal Royalbúðingur
Matgæðingur vikunnar í tbl 26, 2021, var Ásdís Ýr Arnardóttir en hún er Blönduósingur í húð og hár. Ásdís starfar sem kennari í Höfðaskóla á Skagaströnd og er að læra fjölskylduráðgjöf. Hún á tvær stelpur og er forfallinn fjallafíkill. „Eitt sinn var mér sagt að allar bitrar einhleypar konu færu á fjöll og svei mér þá, mig langaði í þann hóp og sé sko alls ekki eftir því. Landið okkar er svo dásamlega fallegt og náttúran er svo nærandi fyrir líkama og sál,“ segir Ásdís.
Hún hefur eldað síðan hún man eftir sér en uppskriftir eru ekki hennar sterka hlið, oft endar dass af þessu og hinu ofan í pottinum. En matseldin á venjulegum degi er sjaldnast flókin en henni finnst gaman að bjóða fólki í mat og eiga skemmtilega kvöldstund þegar tími gefst. „Síðustu ár hefur fiskur og fiskmeti verið í miklu uppáhaldi hjá mér, og það skemmir ekki fyrir ef það eru tiltölulega einfaldir réttir, sem erfitt er að klúðra. Þessi fiskréttur er bestur með góðu salati og heimagerðu brauði.“
AÐALRÉTTUR
Beikonvafinn þorskur í pestó fyrir fjóra
2-3 þorskflök (eða þorskhnakkar)
beikonsneiðar (feitt beikon er betra að mínu mati)
1½ dl rautt pestó
2 dl rjómi
pipar
Aðferð: Þorskflökin eru skorin í væna bita, hvert flak í 2-4 bita. Hverjum bita er pakkað inn í beikon og lagt í eldfast mót. Best er ef bitarnir liggja ekki alveg saman. Pestóinu og rjómanum er hrært saman og hellt yfir fiskinn, og piprað létt. Bakað í ofni við 225°C í u.þ.b. 20 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn.
MEÐLÆTI
Brauð
Brauðuppskriftin er ein mesta snilld sem ég hef rekist á, mér tókst aldrei að baka brauð fyrr en ég fann þessa. Uppskriftin er mjög stór en hana má auðveldlega helminga.
1 kg hveiti
2 msk. salt
2 msk. þurrger
750 ml volgt vatn
Aðferð: Öllu blandað saman í skál með sleif, deigið á að vera blautt. Plastfilma sett yfir skálina og látið hefast í um það bil klst. Þá er deigið hnoðað í brauð, ég geri yfirleitt tvö stór brauð úr uppskriftinni. Brauðin eru látin hefast í um 30 mín. áður en þau fara inn í ofn, mikilvægt er að skera rákir í brauðin til að þau
lyfti sér betur. Gott er að pensla brauðin með vatni og sáldra góðu salti yfir þau fyrir bakstur. Brauðið er bakað við 180°C með blæstri þar til það hefur fengið fallega gullinn lit. Brauðið er fullbakað þegar tómahljóð heyrist í því sé bankað létt í það. Brauðin eru sett í blautt viskastykki meðan þau kólna til að skorpan verði ekki of stökk. Hægt er að leika sér með uppskriftina og gera margar ólíkar týpur af brauði en lykilatriði er að hafa ávallt 1 kg af þurrefnum (hveiti, korni, fræjum, eða öðru mjöli). Það er t.d. mjög gott að blanda saman dass af heilhveiti, hveiti og góðri kornablöndu. Brauðið er borið fram með fiskinum, góðu smjöri og salati.
EFTIRRÉTTUR
Eðal-Royallinn
Einhvern veginn er oft nauðsynlegt að enda máltíðina á einhverju sætu, þar eru einföldu lausnirnar bestar. Royal búðingur með smá tvisti getur ekki klikkað.
með smá tvisti getur ekki klikkað.
1 pakki Royal súkkulaðibúðingur
1 pakki Homeblest
þeyttur rjómi súkkulaðispænir
jarðarber
Aðferð: Súkkulaðibúðingurinn er útbúinn skv. leiðbeiningum á pakkanum. Kexið er mulið niður og sett í glös. Eitt fyrir hvern matargest. Því næst er búðingur settur í hvert glas og toppað með rjóma, súkkulaði og jarðarberjum.
Verði ykkur að góðu!
Ásdís Ýr skoraði á stórbændurna á Uppsölum, Söru Björk Þorsteinsdóttur og Hilmar Birgisson.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.