Beikonvafinn skötuselur, fiskisúpa og grillaðar kókosbollur

-Aðalrétturinn er í miklu uppáhaldi  í fjölskyldunni og hann er borinn fram bæði sem  forréttur eða aðalréttur allt eftir því hvernig legið hefur á okkur, segja matgæðingar vikunnar þau Álfhildur R Halldórsdóttir og Valbjörn Steingrímsson á Blönduósi en þau bjóða upp á beikonvafinn skötusel, fiskisúpu og grillaðar kókosbollur.

 

Aðalréttur
Beikonvafinn skötuselur  grillaður á teini  með engifer-beikonsósu

  • 800 gr skötuselur
  • Beikonsneiðar
  • Meðlæti
  • Soðin hrísgrjón og engifer-beikon sósa
  • Ferskt salat eftir smekk.

Engifer beikon sósa

  • 1. laukur smátt  saxaður
  • 6 beikonsneiðar smátt saxaðar
  • 2 msk. þurrkað engifer
  • 2 dl. hvítvín
  • 2 dl. rjómi
  • 2 msk. Smjör
  • Sósujafnari

Aðferð
Skötuselurinn er skorinn í bita c.a. 6 cm og hver biti er vafinn með beikoni og síðan er  þrætt á grillpinna.

Hrísgrjónin soðin.

Sósa:  Steikja beikon og lauk smá stund í smjöri,  bæta engifer út í og látið steikjast áfram í c.a. 4 mín. Hellið hvítvíninu saman við, sjóðið í aðrar 4 mín, bætið þá rjómanum saman við og látið enn sjóða í smá stund þykkið ef þurfa þykir með sósujafnara og bragðbætið með salti og pipar.

Skötuselurinn:  Hann er grillaður við vægan (medium) hita á útigrillinu í c.a. 6 mín.  á hvorri hlið.  Mikilvægt að víkja ekki frá grillinu á meðan svo hann verði ekki ofeldaður.

Fiskisúpa með grænmeti og osti

  • 1 laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 2 paprikur (rauða og græna)
  • 1 msk. smjör
  • 2 msk. hveiti
  • 8 dl. vatn
  • 2 fiskiteningar
  • Salt og pipar
  • C.a. 500 gr. fiskur,  þorskur,  ýsa eða skötuselur + smávegis af rækjum eftir smekk
  • 2 1/2dl. rjómi
  • 200 gr. jöklasalat
  • 200 g. ostur

 

Aðferð.

Saxið lauk, hvítlauk og papriku.  Léttsteikið í smjöri. Stráið hveitinu  yfir,   bæta vatni í og hrærið stöðugt.  Kryddið með fiskiteningi,  salti og pipar. Fiskurinn settur út í, hleypið upp suðu og sjóðið í 4-5 mín. Bræðið ostinn í rjómanum, og hellið í súpuna. Þegar suðan er komin upp þá að lokum á að setja saxað jöklasalat út í.  Súpan má ekki sjóða eftir það. Gott er að hafa hvítlauksbrauð með. Auðvitað  má nota annan fisk t.d.lúðu, laxa, steinbít eða skelfisk.

Í tilefni sumarkomu er Grill Gúff málið í eftirrétt

  • 100 gr. rifið súkkulaði
  • 3 stk.  kókosbollur
  • 500 gr. ávaxtasalat,  t.d. jarðaber, kíwí, vínber, perur, bananar og epli.
  • Ávextir skornir í bita settir í álbakka. Súkkulaði dreift yfir.
  • Klessið kókosbollunum þar yfir.
  • Grillað í u.þ.b.10 mín. við lágan hita.

    Verði ykkur að góðu

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir