Bændur vilja önnur úrræði í baráttunni við riðuna
RÚV segir frá því að bændur í Húnaþingi vestra vilji endurskoðun á reglugerð um riðuveiki. Eins og greint hefur verið frá á Feyki þá hefur riða greinst á tveimur bæjum í Miðfirði í Húnaþingi vestra en aflífa þurfti 700 kindur á Bergsstöðum og í dag átti að skera niður 720 kindur á Syðri-Urriðaá. Það var hinsvegar ólíklegt að það næðist vegna óvissu vegna förgunar á hræjunum. Fresta verður aflífun fram á sumar ef ekki tekst að leysa förgunarmál fyrir lok dags.
RÚV segir frá því að Gunnar Þorgeirsson, sauðfjárbóndi í Húnaþingi vestra, hafi rætt við aðra bændur í gær. „Eftir þann fund, þar sem bændur ráðfærðu sig við sérfræðing um riðusjúkdóminn, var ákveðið að senda ályktun á matvælaráðuneytið og óska eftir öðrum lausnum. Þá yrði meðal annars horft til verndandi arfgerðar gegn riðu og hvernig megi rækta hana upp hraðar.
„Það sýnir sig alveg að þessi aðferð sem hefur verið beitt í gegnum árin, hún er ekki að skila okkur neinu. Fé hefur stórlega fækkað og búum hefur fækkað. Hlutfallslega er árangurinn mjög lítill. Þannig við verðum að fara að snúa af þessari leið og fara að vinna með þessi verndandi gen“ segir Gunnar.“
Fram kemur í fréttinni að bændur vilji sjá sambærilegan viðauka við reglugerð hér heima og er í Evrópusambandsreglugerð sem veitir undanþágu gegn niðurskurði alls fjár. „Þess í stað sé hólf þar sem smit greinist einangrað, tekin sýni til tilrauna og fylgst með framgangi sjúkdómsins.“
Sjá nánar á rúv.is >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.