Aukin þjónusta hjá Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi

Frá blönduósi

Í júlí s.l. hófst samstaf HSB og FSA á Akureyri um símaþjónustu. Snýst þetta samstarf um að hjúkrunarfræðingar á bráðamóttöku FSA svara vaktsíma lækna á Blönduósi frá kl. 23.00 til 08.00 alla daga og ef talin er þörf á viðtali eða skoðun læknis er símtalið sent áfram á viðkomandi vaktlækni á staðnum. 112 er eftir sem áður neyðarsími í slysum og bráðum veikindum. Hefur reynslan af þessu fyrirkomulagi verið góð.

Þá hefur HSB einnig gert samning við FSA um samstarf og samvinnu hvað varðar þjónustu við myndgreiningardeild stofnunarinnar. Allar myndir verða nú vistaðar hjá FSA þar sem lesið er úr þeim og þær greindar. Samhliða þá opnast fyrir helgarþjónustu á þessu sviði sem ekki hefur verið til þessa auk þess sem myndgreiningardeild HSB fer inn í gæðakerfi FSA o.s.frv. Með þessari samtengingu opnast einnig sá möguleiki að læknir á Blönduósi getur eftir þessa breytingu skoðað í sinni tölvu myndir um leið og þær hafa verið teknar og um leið og röntgenlæknir á Akureyri hefur lesið og greint myndina getur læknir á Blönduósi á sama hátt skoðað svörin og veitt viðeigandi meðferð.

Einnig er unnið að auknu samstarfi á sviði rannsóknardeilda HSB og FSA og verða tæki HSB tengd rannsóknarkerfum FSA og hafa þá læknar HSB og starfsfólk rannsóknardeildar beinan aðgang að niðurstöðum rannsókna sem gerðar eru hjá FSA og munu við þetta m.a. hverfa svokölluð læknabréf sem send eru með venjulegum pósti um niðurstöður rannsókna. Verður mikið hagræði af þessari breytingu og um leið batnar ef þannig má að orði komast þjónusta við sjúklinga og skjólstæðinga HSB. því niðurstöður rannsókna sem gerðar eru á FSA skila sér fyrr en áður hefur verið. Á sama hátt getur læknir hjá FSA sem hefur til meðferðar sjúkling sem sendur er frá HSB til Akureyrar skoðað hvaða rannsóknir hafa verið gerða á viðkomandi sjúkling hér og þá um leið metið hvort rétt sé að gera nýja rannsókn eða nýta niðurstöður sem koma úr rannsókn sem gerð er á Blönduósi. Mun þetta fyrirkomulag koma í veg fyrir óþarfa rannsóknir á sjúklinum og þar með fækka slíkum rannsóknum.

Samhliða ofangreindu hefur verið unnið að því að tengja saman sjúkraskrárkerfi stofnana á norðurlandi og mun sú aðgerð þegar af verður auðvelda og bæta þjónustu heilbrigðisstarfsfólks við sjúklinga á svæðinu en mikið er um tvíverknað í heilbrigðiskerfinu almennt séð auk þess sem aðgengi lækna að upplýsingum um þá sjúklinga sem þeir hafa til meðhöndlunar batnar og þá um leið sú þjónustu sem viðkomandi sjúklingum er veitt . Er gert ráð fyrir því að í lok september verði vinnu við tengingar gangagrunna lokið.

Ofangreind atriði sem hér hafa verið nefnd fyrr eru unnin í samstarfi og samvinnu við og á vettvangi samstarfsnefndar heilbrigðisumdæmis norðurlands en með breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu sem sett voru árið 2007 opnaðist formlegur samstarfsvettvangur milli stofnana. Forstjórar stofnananna sitja í samstarfsnefndinni og kalla þeir til samstarfs aðra starfsmenn s.s. fulltrúa í framkvæmdastjórnum þeirra eftir því hvaða mál er um fjallað hverju sinni. Hefur samstarfsnefndin á norðurlandi verið mjög virk og vænta má þess að á komandi mánuðum muni fleiri þættir en hér er um fjallað verða sýnilegir. FSA sem stærsta heilbrigðisstofnunin á norðurlandi skiptir Húnvetninga jafnt sem aðra norðlendinga miklu máli og aukin samvinna eflir ekki aðeins FSA heldur einnig HSB sem er ekki síður mikilvægt.

Texti: Valbjörn Steingrímsson

Heimild: www.hsb.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir