Augnablik bar sigurorð af brothættu Stólaliði

Luke skýtur en skorar ekki. Hann átti eftir að skora eitt magnaðsta mark sem sést hefur á gervigrasinu en það dugði ekki til. MYND: ÓAB
Luke skýtur en skorar ekki. Hann átti eftir að skora eitt magnaðsta mark sem sést hefur á gervigrasinu en það dugði ekki til. MYND: ÓAB

Lið Tindastóls tapaði þriðja leiknum í röð í gær þegar Augnablik kom í heimsókn á Krókinn. Gestirnir voru sterkara liðið í leiknum en Luke Rae fékk nokkur frábær færi fyrir Stólana, sem hann reyndar bjó að mestu til sjálfur, en nýtti aðeins eitt. Gestirnir gerðu hins vegar tvö mörk og sigruðu lið Tindastóls sem virðist rétt hanga saman á límingunum þessa dagana. Lokatölur 1-2.

Luke átti tvö fín færi á upphafsmínútunum en eftir það náðu gestirnir tökum á leiknum. Stólarnir voru áfram hættulegir og með Luke Rae hreint ómótstæðilegan virtist allt vera mögulegt. Hann hreinlega tætti varnarmenn Augnablika í sig hvað eftir annað en honum tókst ekki það mikilvægasta – að finna markið. Benni fyrirlið hafði komið inn í lið Tindastóls eftir að hafa misst af nokkrum leikjum vegna meiðsla en hann dugði bara í hálftíma og hvarf þá haltrandi af velli. Hann hefur verið plagaður af meiðslum í mest allt sumar. Allt leit út fyrir að fyrri hálfleikur yrði markalaus þar til Luke dúkkaði upp með algjört galdraverk sem skildi áhorfendur eftir kjaftstopp. Hann virtist vera búinn að missa boltann aftur fyrir endamörk en setti í túrbóið, náði boltanum í vonlausri stöðu en lék þá á nokkra gesti á línunni, komst inn að marki og af því færi klikkaði kappinn ekki. 1-0 í hálfleik.

Tindastólsmenn komu til leiks í síðari hálfleik með lappirnar í eftirdragi. Gestirnir létu boltann ganga vel á sín á milli og þeir náðu að minnka muninn á 50. mínútu þegar Brynjar Óli Bjarnason (flott nafn) skallaði boltann frá fjærstöng í háum boga yfir Atla Dag í markinu og í fjærhornið. Þetta var ekki það sem Stólana vantaði og þeir voru enn hálf lamaðir þegar Augnablikar náðu enn einni laglegri sókn þar sem þeir spiluðu Stólana sundur og saman og Nökkvi Egilsson átti loks laglegt skot í fjærhornið. Lið Tindastóls reyndi að koma sér í gang að nýju en eins og stundum áður í sumar fór orkan of mikið í pirring og látalæti. Þegar Fannar Kolbeins fór af velli með gat á hausnum, enn eina ferðina, kom Jamie þjálfari inn á og það væri synd að segja að æsingurinn hafi minnkað við það!  Bæði lið fengu sénsa til að skora, Addi Ólafs þar á meðal nokkuð frían skalla í uppbótartíma, en mörkin urðu ekki fleiri.

Þegar tvær umferðir eru eftir hefur lið Tindastóls sogast ofan í fúlan fallpytt. Það þarf reyndar hreint ótrúlega óheppni til að allt fari á versta veg – spurning hvort það sé hreinlega mögulegt miðað við þá leiki sem eftir eru í deildinni. Eins og sunnudagurinn í enska boltanum sannaði þó þá er víst allt mögulegt í fótbolta. 

Fjórir leikmenn voru á bekk Stólanna í dag, einn þeirra meiddur en hinir þrír komu allir inn á og þar með talinn Jamie þjálfari. Luke var mjög góður í dag en klikkaði þó á of mörgum færum, sömuleiðis var Konni fínn. Þá stóð Bjarni Smári fyrir sínu og rúmlega það. Í lið Tindastóls vantaði Ísak, sem var loks í banni, og Hamish sem enn er meiddur. 

Næsti leikur er á Vopnafirði nk. laugardag og lokaleikur Tindastóls þetta sumarið (eða þannig) verður svo 17. október gegn Reyni Sandgerði hér heima.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir