Atli Jónasson ráðinn yfirþjálfari yngri flokka Tindastóls
Atli Jónasson hefur verið ráðinn til starfa hjá Knattspyrnudeild Tindastóls en hann kemur til félagsins frá Stjörnunni. Á heimasíðu félagsins kemur fram að Atli muni verða aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla auk þess að gegna hlutverki yfirþjálfara yngra flokka félagsins og þjálfa 3. og 4. flokk karla.
Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu KSÍ á Atli, 159 leiki að baki sem markmaður í meistaraflokki Íslandsmótsins í knattspyrnu í öllum deildum en árið 2010 lék hann með Hvöt í 2. deild karla. Þá þjálfaði Atli lið KV, sem er undir verndarvæng KR, árin 2015 -2017 og síðan þá yngri flokka hjá Stjörnunni í Garðabæ.
Sterka tengingu hefur Atli á Krókinn þaðan sem móðir hans er en foreldrar hans, sem bæði eru látin, voru þau Svava Hjaltadóttir og Jónas Björnsson, sem gerði garðinn frægan sem trommari á árum áður. Atli mun koma til starfa á Sauðárkróki um næstu mánaðarmót.
Hér er hægt að nálgast hlaðvarpsþátt á Fótbolta.net, Miðjan, þar sem Atli ræðir um áföll, agabrot og fleira.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.