Arnar átti fínan leik gegn sterkum Spánverjum

Arnar í spjalli við Karfan.is. SKJÁSKOT
Arnar í spjalli við Karfan.is. SKJÁSKOT

Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik lék gegn Evrópu- og Heimsmeisturum Spánar í Laugardalshöllinni í gær en leikurinn var liður í undankeppni fyrir HM. Spánverjarnir mættu til leiks með nokkurs konar B- lið en breiddin á Spáni er mikil og það reyndist þeim ekki mikið vandamál að leggja íslenska liðið. Lokatölur voru 61-80 en Norðlendingarnir í liði Íslands stóðu sig einna best; þeir Tryggvi Hlinason og Arnar Björnsson.

Tryggvi, sem er frá Bárðardal í Þingeyjarsýslu, var með 13 stig og sjö fráköst en Arnar gerði tíu stig og komst mjög vel frá sínu. Það munaði mestu í leiknum að Spánverjarnir hittu hreint ótrúlega utan 3ja stiga línunnar og nánst sama hverju þeir hentu upp í loftið og við hvaða aðstæður – boltinn rataði rétta leið (14/25) – á meðan skotin geiguðu hjá Íslenska liðinu (3/26). Í raun var það þannig að hittni Spánverjanna var töluvert betri utan 3ja stiga línunnar en innan hennar!

Ísland spilar tvo síðustu leiki sína í undankeppninni í þessum landsleikjaglugga og nú á liðið aðeins eftir að mæta sterku liði Georgíu á útivelli. Fjögurra stiga sigur í Tblisi mundi tryggja liði Íslands sæti í lokakeppni Heimsmeistaramótsins í fyrsta sinn í sögunni og því til mikils að vinna á sunnudaginn þegar liðin mætast. Georgíumenn unnu nauman þriggja stiga sigur á Íslandi hér heima þar sem mörgum fannst úrslitin ekki endurspegla leikinn. Það er að vísu skarð fyrir skildi að nokkra máttarstólpa vantar í íslenska liðið en reiknað er með að nokkrir lykilmenn, sem voru fjarri góðu gamni í gærkvöld, skili sér í hópinn fyrir ferðina til Georgíu; má þar nefna Kristófer Acox, Elvar Má og Hauk Helga.

Viðtal við Arnar Björns, þar sem hann segir m.a. að leikurinn gegn Georgíu sé stærsti leikur sem Ísland hafi spilað frá upphafi, má sjá á Karfan.is >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir