Árdís og Ólafía sigruðu í Gettu betur

Ólafía og Árdís ásamt Steindóri spyrli Mynd: Skagaströnd.is

Á vef Skagastrandar er sagt frá því að þátttakendur í spurningakeppninni Gettu betur, sem fram fór í Kántrýbæ síðasta föstudagskvöld, létu spyrilinn, Steindór R. Haraldsson, vel finna fyrir sér. Samkvæmt reglum keppninnar má draga þekkingu og hæfni spyrilsins í efa og nýttu menn sér það svikalaust.

 

Fyrir vikið varð þetta ein skemmtilegasta spurningakeppnin frá upphafi enda Steindór með orðheppnari mönnum og leyfði engum að eiga neitt inni hjá sér. Taka verður fram að spyrillinn er einnig dómari og alvaldur og því átti Steindór alls kostar við óeirðaseggi í hópi þátttakenda.

 

Þó verður að segjast eins og er að spurningar Steindórs voru í erfiðari kantinum. Yfirleitt hefur þurft 20 til 24 rétt svör til að sigra en sigurvegararnir, Árdís Indriðadóttir og Ólafía Lárusdóttir, náðu aðeins 16 stigum. Segir það sína sögu um spurningarnar.

 

Um þrjátíu manns tóku þátt að þessu sinni. Ár er nú liðið frá því að Kántrýbær tók að bjóða upp á þessa nýbreytni í bæjarlífinu og væntanlega verða þau enn fleiri.

 

Spurningar og svör úr síðustu keppni eru birtar á vef sveitarfélagsins Skagaströnd.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir