Andabringur með appelsínusósu
Uppskriftir vikunnar að þessu sinni eiga þau Rúnar Birgir Gíslason og Hugrún Ósk Ólafsdóttir, sem bjuggu á Sauðárkróki þegar þær birtust í Feyki árið 2010. -Uppskriftina að andabringunum fengum við hjá vinum okkar þegar við vorum í námi í Danmörku. Þær hafa alltaf vakið lukku hjá gestum okkar og einn af eftirlætis hátíðarréttum fjölskyldunnar. Á svipuðum tíma áskotnaðist okkur uppskriftin að ístertunni sem er einföld og góð, sögðu þau Rúnar og Hugrún.
Andabringur með appelsínusósu
Andabringur fyrir ca. 4
Hreinsið bringurnar, skerið grunnar raufar ofaní skinnið og nuddið með pipar og salti. Steikið á háum hita í u.þ.b. 4-5 mínútur á hvorri hlið. Ausið fitunni af á meðan á steikingu stendur og leggið til hliðar. Þar næst eru bringurnar settar í u.þ.b. 200 gráðu heitan ofn í 8-10 mínútur eða þar til kjötið er fullsteikt. Leyfið svo bringunum að standa í 10 mínútur með álpappír breiddan yfir.
Sósa:
- 4 msk sykur
- 1 dl vatn
- 1 dl hvítvín
- 3 msk hvítvínsedik
- 2dl nýkreistur appelsínusafi
- 2 msk appelsínuþykkni
- 1 msk rifinn appelsínubörkur
- 4 dl vatn + andakraftur
- sósujafnari
- 50 gr kalt smjör
- salt + pipar
Hellið andafitunni á pönnu og bætið við sykri og vatni þar til úr verður dökk karamella. Bætið hvítvíni og hvítvínsediki við og sjóðið niður um helming. Bætið þar næst vatni + andakrafti útá og þykkið með sósujafnara. Takið pönnuna af hellunni og hrærið smjöri saman við (látið sósuna ekki sjóða eftir það). Kryddið með salti og pipar. Berið fram með nýjum kartöflum og ofnsteiktu rótargrænmeti.
Daim ísterta
(fyrir 8 manns)
Botn:
- 3 eggjahvítur
- 150 gr sykur
- 150 gr möndlur (með hýðinu)
Ís:
- 3 eggjarauður
- 100 gr sykur
- 3 dl rjómi
- 4 lítil Daim
Aðferð:
Þeytið eggjahvíturnar þar til þær eru næstum stífar og bætið sykrinum saman við jafnt og þétt á meðan. Saxið möndlurnar niður og bætið þeim útí. Setjið þetta í smelluform og bakið í u.þ.b. 30 mínútur við 170 gráður C. Leyfið botninum að kólna.
Þeytið eggjarauðurnar og sykurinn þar til það er ljóst og létt. Þeytið þar næst rjómann og blandið honum saman við eggjamassann. Saxið Daim súkkulaðið gróft og bætið útí. Hellið blöndunni ofan á botninn sem er orðin kaldur. Setjið filmu yfir og kælið í lágmark 4 tíma.
Takið ístertuna úr frysti og losið úr forminu 10-15 mínútum áður en hún er borin fram.
Verði ykkur að góðu!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.