"Ánægðust þegar ég sé manneskju í peysu sem ég prjónaði fyrir hana"
Leana Anna Haag er frá Sviss, en býr í Vík í Staðarhreppi með kærastanum Axel Kárasyni. Leana flutti til Íslands árið 2020 en kom fyrst árið 2010, þá sem ferðamaður í hestaferð. Leana vinnur á leikskólanum Ársölum á Sauðárkróki.
Hvernig byrjaðir þú og hve lengi hefur þú stundað hannyrðir? Byrjaði að prjóna í desember 2013 þegar ég kom heim til Sviss eftir að hafa dvalið á Íslandi í nokkra mánuði. Það var mamma sem ýtti á mig og systur mína að prófa að prjóna og erum við allar þrjár nokkuð duglegar við prjónaskapinn. Fyrsta verkefnið var trefill og ég fann strax að mér þótti þetta skemmtilegt þannig að þegar ég var búin með trefilinn dembdi ég mér um leið í lopapeysu.
Hvaða handavinna þykir þér skemmtilegust? Ég hef mjög gaman af því að prjóna, og prófa mig áfram með íslenskt mynstur því mynstrið er svo lifandi og getur litasamsetning breytt svo miklu þannig að stundum er erfitt að vita hvernig hlutirnir koma út þangað til verkið er fullklárað.
Hverju ertu að vinna að um þessar mundir? Núna er ég að æfa mig í að prjóna peysu, sem er ekki með íslensku mynstri og úr erlendri ull. Næsta verkefni þar á eftir á svo að vera lopapeysa sem verður opnuð og settur rennilás.
Hvar færðu hugmyndir að verkum? Ég hef sankað að mér mjög mörgum prjónabókum og svo að sjálfsögðu á Instagram.
Hvaða handverk sem þú hefur unnið ertu ánægðust með? Það er mjög erfitt að velja á milli. En ætli það sé ekki bara best að segja að ég sé ánægðust þegar ég sé manneskju í peysu sem ég prjónaði fyrir hana.
Eitthvað sem þú vilt bæta við? Bara nefna hversu dásamlegt það er að prjóna, sjá eitthvað verða smátt og smátt til úr einföldu hráefni.
Áður birst í tbl. 48 Feykis 2022.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.