Ámundakinn er bakhjarl og hvati til að efla atvinnu- og mannlíf
Á Húnahorninu undir lok júnímánaðar mátti lesa um aðalfund Ámundakinnar ehf. en hann var haldinn 14. júní síðastliðinn í Eyvindarstofu á Blönduósi. Félagið stundar útleigu fasteigna og er þátttakandi í rekstri fyrirtækja á starfssvæði sínu. Rekstrartekjur félagsins í fyrra, samkvæmt ársreikningin, námu 138 milljónum króna og hækkuðu um 2,2% milli ára. Rekstrargjöld námu 80,4 milljónum og hækkuðu um 9,5%.
Hagnaður félagsins fyrir fjármagnsliði var 57,6 milljónir en var 61,6 milljónir árið 2021. Að teknu tilliti til fjármagnsliða, áhrif hlutdeildarfélaga og skatta nam tap félagsins 25,9 milljónum samanborið við 1,4 milljónir í hagnað árið 2021.Heildareignir Ámundakinnar í árslok 2022 námu 1.437,8 milljónum króna og hækkuðu um 8,5% milli ára. Skuldir námu 994 milljónum um áramót og hækkuðu um 15,9%. Eigið fé var 443,7 milljónir og lækkar milli ára vegna taprekstrarins.
Breytingar urðu á stjórn félagsins á aðalfundinum en Pétur Friðjónsson hjá Byggðastofnun kom nýr inn í stjórnina í stað Péturs Grétarssonar. Þegar stjórn skipti með sér verkum eftir fundinn, var Guðmundur Haukur Jakobsson kosinn formaður, Jón Gíslason varaformaður og Pétur Friðjónsson ritari.
Félagið styrkir ýmiss félagasamtök
Húnahornið hefur eftir Jóhannesi Torfasyni, framkvæmdastjóra Ámundakinnar, að við lauslega athugun stundi á annað hundrað manns nú vinnu í húsum sem Ámundakinn á eða hefur byggt eða átt í „Stór-Húnavatnssýslu“ og þá sé hannekki að tala neitt um svokölluð afleidd störf. „Enginn getur sagt fyrir um hvað hefði orðið ef félagið hefði ekki komið til en fullyrða má að landslagið væri á annan veg,“ er haft eftir Jóhannesi.
Stefna Ámundakinnar er að „vera bakhjarl og hvati til að efla atvinnu- og mannlíf í héraðinu.“ Félagið styrkir ýmiss félagasamtök, s.s. Björgunarfélagið Blöndu, USAH, Kiwanisklúbbinn Drangey, Húnavökuritið, Hollvinasamtök Héraðshælisins o.fl. Lítur stjórn félagsins á það sem eins konar viðurkenningu fyrir margþætt starf þessara samtaka í héraðinu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.