Ályktun frá Hægri grænum, flokki fólksins

Hægri grænir,  flokkur fólksins skorar á stjórnvöld að:
a) Setja á stofn Sannleiks og sáttadómstól til þess að fara ofan í öll hrunmál svo þjóðin geti sameinast um heiðarlegt verklag inn í framtíðina.
b) Krefjast upprunavottorðs fjármagns, fyrir þá aðila sem hyggja á fjárfestingar hér á landi.
c) Verðlauna uppljóstrara og starfsmenn erlendra og innlendra fjármálafyrirtækja 25% af heimtum sem kunna að finnast erlendis í skattaskjólum t.d. eins og á Cayman-eyjum, Lúxemborg  og Tortola og ekki er búið að greiða skatt af eða gera löglega grein fyrir.d) Sekta og svifta  þá aðila sem brotlegir hafa gerst við skattalög, orðum og öðrum vegtyllum sem þeim hefur hlotnast og setja  þá í viðskiptabann,  fyrirmuna þeim að stofna fyrirtæki og sitja í stjórnum. Ef um opinbera starfsmenn og embættismenn er að ræða, þá á dómstóllinn að geta vítt þá, sektað, bannað þeim að gegna opinberum trúnaðarstörfum fyrir ríki og bæi ævilangt og lækkað eða afnumið eftirlaun þeirra, eftir því hversu gróf brot þeirra eru.

Greinargerð.
Enginn ærlegur Íslendingur vill að hrunið gleymist og sársaukinn sem fylgdi hruninu er svo alvarlegur fyrir marga einstaklinga og fyrirtæki, að nauðsynlegt er að komast að sannleikanum hvað gerðist hér á landi í raun og veru. Nauðsynlegt er að ljúka málinu sómasamlega, réttlátlega og ná sátt með þjóðinni, öðruvísi er erfitt að halda áfram á þeirri löngu og flóknu vegferð sem við höfum fyrir höndum. Landsdómur leiddi í ljós yfirgripsmikla samskiptaörðugleika íslenskra embættismanna og vanhæfni í mörgum tilvikum. Víða er pottur brotinn í íslenskri stjórnsýslu, sem verður að laga. Stjórnmálahreyfingin Hægri grænir, flokkur fólksins vill setja á stofn 15 manna Sannleiks- og sáttadómstól sem myndi skoða alla hrunsöguna til dagsins í dag. Margir telja að siðbresturinn hafa byrjað með gjaldþroti Sambandsins, því í kjölfar þess myndaðist tómarúm á eignarhaldi á nokkrum mikilvægum fyrirtækjum tengdum Sambandinu og inn í þetta tómarúm gengu ýmsir og hirtu félögin. Einkavæðing bankanna upp úr aldamótum hefur verið umdeild, svo og endurreisn bankanna eftir hrun. Ekki á að setja Sannleiks og sáttadómstólinn á laggirnar til þess að dæma menn til þungra refsinga eða fangelsisvistar heldur til þess að þjóðin sameinist um heiðarlegt verklag sem við viljum hafa með okkur inn í framtíðina, sem er bjartari en margan grunar. Ekki er verið að álykta með þessu að sekir eigi að sleppa við refsningar. Sérstakur saksóknari er að vinna sína vinnu gaumgæfilega og lýkur vinnu sinni á næstu misserum. Dómstólar taka svo við þessum málum og skera úr um sekt eða sakleysi manna.

Alþingi stendur sig ekki

Þessi Sannleiks- og sáttadómstóll ætti að byrja á því að rannsaka hvort Alþingi hafi uppfyllt ályktun Alþingis við skýrslu Rannssóknarnefndar Alþingis, því öðruvísi næst ekki sátt í þjóðfélaginu. Aþingi Íslendinga samþykkti með 63 atkvæðum gegn engu, þingsályktun um viðbrögð Alþingis við skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis 2010. Þar segir:

•          Alþingi ályktar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé vitnisburður um þróun íslensks efnahagslífs og samfélags undangenginna ára og telur mikilvægt að skýrslan verði höfð að leiðarljósi í framtíðinni.

•          Alþingi ályktar að brýnt sé að starfshættir þingsins verði teknir til endurskoðunar. Mikilvægt sé að Alþingi verji og styrki sjálfstæði sitt og grundvallarhlutverk.

•          Alþingi ályktar að taka verði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og leggur áherslu á að af henni verði dreginn lærdómur.

•          Alþingi ályktar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu.

•          Alþingi ályktar að stjórnendur og helstu eigendur fjármálafyrirtækja á Íslandi beri mesta ábyrgð á bankahruninu.

•          Alþingi ályktar að eftirlitsstofnanir hafi brugðist.

•          Alþingi ályktar að mikilvægt sé að allir horfi gagnrýnum augum á eigin verk og nýti tækifærið sem skýrslan gefur til að bæta samfélagið.

•          Alþingi ályktar að fela forsætisnefnd, viðkomandi nefndum Alþingis, stjórnlaganefnd, sbr. lög um stjórnlagaþing, nr. 90/2010, og forsætisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar að ráðast í eftirfarandi {....}.

Einnig samþykkti Alþingi að eftirfarandi rannsóknir og úttektir færu fram á vegum Alþingis:

1. Sjálfstæð og óháð rannsókn á starfsemi lífeyrissjóða á Íslandi frá setningu laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, og síðar. Í kjölfar þess fari fram heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi lífeyrissjóðanna.

 

2. Sjálfstæð og óháð rannsókn á aðdraganda og orsökum falls sparisjóða á Íslandi frá því að viðskipti með stofnfé voru gefin frjáls. Í kjölfar þess fari fram heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi sparisjóðanna.

3. Stjórnsýsluúttekt á Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands. Á grundvelli hennar verði metnir kostir og gallar þess að sameina starfsemi stofnananna í þeim tilgangi að tryggja heildaryfirsýn yfir kerfisáhættu, fjármálalegan stöðugleika og ábyrgð á samræmingu viðbragða. Heimild: Alþingi

Þrjár nefndir í pípunum?

1)         Ekki hefur verið gengið frá skipun rannsóknarnefndar Alþingis sem rannsaka átti aðdraganda og orsakir erfiðleika og taps lífeyrissjóðanna.

2)         Ekki hefur verið gengið frá skipun rannsóknarnefndar um einkavæðingu bankanna.

3)         Ekki farið fram stjórnsýsluúttekt á Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands.

Varðandi úrlausnir Alþingis við öðrum samþykktum ályktunum í þessari þingsályktun eru mjög skiptar skoðanir hvernig til hefur tekist. Uppskera forsætisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar varðandi; Stjórnlaganefnd, Stjórnlagaþing og Stjórnlagaráð er umdeild. Ýmsum öðrum spurningum um lagasetningar sem dæmdar hafa verið ólöglegar í Hæstarétti verður einnig að svara.

Frekari rannsóknir nauðsynlegar

Ljóst þykir að rannsaka verður opinberlega nokkur mál, eins og:

•          Icseave ferlið frá upphafi.

•          Verklag og ákvarðanir stjórnvalda við endurreisn fjármálageirans.

•          Bankafærslur efsta lags opinberra embættismanna og ríkisforstjóra sl. 10 ár

•          Einkavæðingu Íslenskra aðalverktaka.

•          Eignarhaldsfélag Samvinnutrygginga, Gift og skyld fyrirtæki.

•          Sala, söluferli og eigendur stórfyrirtækja sem eru eða voru í eigu nýju bankanna og skilanefnda.

Þessi upptalning er að sjálfsögðu ekki tæmandi, en er vísbending um þær fjölmörgu spurningar sem við verðum að fá svar við, og sýnir nauðsyn þess að setja á stofn Sannleiks og sáttadómstól þar sem misgjörðir stjórnmálamanna, opinberra embættismanna og meðreiðarsveina þeirra á frjálsum markaði verða afhjúpaðar. Eiðsverja á þá sem koma fyrir Sannleiks- og sáttadómstólinn og fólkið í landinu á að geta fylgst með yfirheyrslum í beinni útsendingu. Í nefndina yrðu valdir 15 ópólitískir sérfræðingar og lögfróðir menn til þess að leiða sannleikann í ljós.

Makleg málagjöld

Hægri grænir, flokkur fólksins hefur það einnig á stefnuskrá sinni að allir meintir útrásarvíkingar og meðreiðasveinar þeirra þurfi í framtíðinni að hafa með sér upprunavottorð fjármagns, ef þeir hyggja á fjárfestingar hér á landi. Koma verður í veg fyrir peningaþvott, en ýmsar leiðir eru notaðar til að koma aflandskrónum í umferð á Íslandi. Það er ekki sanngjarnt að heiðvirðir menn þurfi að keppa við lágt gengi aflandskróna og illa fengið fé, þegar þeir eru að bjóða í eignir banka og lífeyrissjóða. Aflandskrónur í skattaskjólum eiga eingöngu að vera gjaldgengar ef sannanir liggja fyrir því að til þeirra hafi verið stofnað á heiðarlegan hátt og búið sé að greiða skatt af þeim. Vill flokkurinn einnig verðlauna uppljóstrara og starfsmenn erlendra og innlendra fjármálafyrirtækja 25% af heimtunum sem kunna að finnast erlendis og ekki búið að greiða skatt af eða gera löglega grein fyrir. Einnig vill flokkurinn að Sannleiks og sáttadómstóllinn geti sektað og svipt þá aðila, sem brotlegir hafa gerst, orðum og öðrum vegtyllum sem þeim hefur hlotnast og geta sett þá í 10 ára viðskiptabann, fyrirmuna þeim að stofna fyrirtæki og sitja í stjórnum. Ef um opinbera starfsmenn og embættismenn er að ræða og þeir gerst brotlegir, gæti Sannleiks og sáttadómstóllinn vítt þá, sektað, bannað þeim að gegna opinberum trúnaðarstörfum fyrir ríki og bæi ævilangt og lækkað eða afnumið eftirlaun þeirra, eftir því hversu gróf brot þeirra eru.

Fh. stjórnar Hægri grænna, flokks fólksins,

Guðmundur Franklín Jónsson, formaður

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir