Alþjóðlegir riðusérfræðingar í Varmahlíð :: Fyrstu niðurstöður riðurannsókna kynntar
Eins og margir hafa fylgst með undanfarin misseri hefur hinn válegi búfjársjúkdómur, riða, herjað á fé bænda á Norðurlandi vestra með öllum þeim kostnaði og óþægindum sem honum fylgja. Sem betur fer eru önnur úrræði sjáanleg í nánustu framtíð en niðurskurður þeirra fjárstofna sem riða greinist í, eins og lög og reglur kveða á um hér á landi því alþjóðleg rannsókn er í gangi vegna veikinnar hér á landi. Miðvikudagskvöldið 21. júní kl. 20 hefur verið boðað til upplýsingarfundar í Miðgarði í Varmahlíð þar sem allir áhugasamir eru velkomnir. Þá er boðið upp á aukafund frá kl. 17 til 18:30 með enn meiri fróðleik þar sem fundarmönnum verður gefið tækifæri til að spyrja spurningar og „ræða málin“ beint við vísindamennina.
Feykir hafði samband við Karólínu Elísabetardóttur, í Hvammshlíð, sem upphaflega kom sambandi á á milli íslenskra vísindamanna og erlendra vegna riðunnar.
„Hópur riðusérfræðinga frá Englandi, Frakklandi, Ítalíu, Spáni og Þýskalandi er væntanlegur til landsins. Íslenska teymið – Stefanía Þorgeirsdóttir og Vilhjálmur Svansson á Keldum, Eyþór Einarsson RML og ég – ætlar að fara með hópinn í vettvangsferð þvert og kruss á ýmsa „heita reiti“ riðuveiki á Norðurlandi. Einn hápunktur ferðarinnar verður opinn upplýsingarfundur þar sem sauðfjárbændum, dýralæknum og öllum öðrum áhugasömum er boðið,“ segir Karólína.
Hún segir aðdragandann á þann veg að vorið 2021 hafi samstarf íslenskra bænda og í kjölfarið RML og Keldna við erlenda riðusérfræðinga byrjað. Fyrst á sviði arfgerðagreininga varðandi næmi fyrir riðusmiti, við próf. Gesine Lühken sem kom í Skagafjörðinn sama haust, en smám saman hafi fleiri og fleiri vísindamenn bæst í hópinn. Segir hún Christine Fast, hjá þýsku príonsjúkdómamiðstöðinni Friedrich-Loeffler-Institut, hafa verið mjög virka í því að smala sérfræðingum og sótti fyrir hönd hópsins um Evrópustyrk.
„Þetta hafðist og ESB styrkir rannsóknarpakka í kringum riðuveiki á Íslandi með upphæð sem samsvarar 190 milljónum krónum. Þróun og sjúkdómastaða hér á landi eru að mörgu leyti mjög sérstakar, ekki síst með tilliti til einangrunar íslenska sauðfjárstofnsins, og niðurstöður rannsóknanna verður hægt að færa yfir á önnur lönd og önnur kyn,“ segir Karólína og bætir við að íslenska teymið fái ekkert af þeim fjármunum en Ísland nýtur að sjálfsögðu góðs af niðurstöðum úr rannsóknunum.
Geturðu lýst því hvernig hefur gengið í leitinni að ARR í íslenska fjárstofninum?
„Eins og allir vita var gert ráð fyrir að ARR fyndist ekki hér á landi en 7. janúar 2022 fannst það samt, nefnilega á Þernunesi í Reyðarfirði. En til þessa er þetta eini bærinn – þrátt fyrir yfir 30.000 arfgerðagreinda gripi og þrátt fyrir markvissa leit í sérvöldum hjörðum þar sem líkurnar þóttu góðar að rekjast á ARR. Sem betur fer kemur arfgerðin fyrir í tveimur aðskildum fjölskyldum innan Þernunes-hjarðarinnar sem er ótrúleg heppni. Þess vegna komu núna í heiminn fyrstu arfhreinu lömbin sem eru samt ekki skyldleikaræktaðar.
Leitin mun samt halda áfram og við gerum ráð fyrir að hluti af þessum 567 milljónum, sem Matvælaráðuneytið lofaði til arfgerðagreininga, fari í hana. Þess má geta að til þessa hefur ekki verið hægt að rekja uppruna ARR-gripanna til erlendra kynja en viðkomandi rannsókn er enn í gangi.“
T137 virðist vera mun algengari arfgerð hér á landi, hver er munurinn á þessu tvennu?
„Breytileikinn T137 (stökkbreyting í sætinu 137 príonpróteinsins) fannst í átta ótengdum hjörðum. Í stuttum orðum: R171 (ARR) er alþjóðlega viðurkennd sem verndandi breytileiki, T137 hins vegar (enn) ekki. Hvort hann virki eins vel og ARR, mun koma í ljós í ofangreindu rannsóknunum.
Hann hefur samkvæmt nokkrum stórum rannsóknum reynst fullkomlega verndandi á Ítalíu en þar sem þar í landi er ARR algeng arfgerð hafa ekki verið gerðar neinar tilraunir til að fá ESB-viðurkenningu fyrir hann eða til að rannsaka hann fyrir utan Ítalíu. Ítalski riðustofninn er nokkuð sérstakur miðað við stofnana sem eru virkir í flestum öðrum Evrópulöndum. Þess háttar rannsóknir sem eru í gangi núna varðandi íslenska riðustofna og T137, og reyndar líka N138, C151 og H154 eða AHQ – hina mögulega lítið næma eða verndandi breytileika sem finnst á Íslandi, eru þess vegna brautryðjandi.“
Hvernig hafa bændur tekið þessum verkefnum og hvað sérðu fyrir þér að taki langan tíma að rækta riðuþolinn stofn á Íslandi?
„Eins og ég veit best hafa bændur tekið þessum rannsóknum fagnandi. Reyndar fer þessi tími alveg eftir því hvort þeir láta slag standa og rækta markvisst verndandi og lítið næmar arfgerðir, þ.e. hætta á sama tíma að setja á gripi með næmar arfgerðir (ARQ/ARQ, ARQ/VRQ eða VRQ/VRQ) nema um mjög sérstaka gripi sé að ræða, t.d. forystufé. Því fleiri arfgerðir verða í boði til að velja úr – vonandi bætast nokkrar við –, því fljótara verður hægt að rækta upp riðuþolinn stofn. Rannsóknirnar munu leiða þetta í ljós.
Bændur, sem eru í mestri hættu og eru að flýta sér, geta náð markmiðunum innan þriggja til fimm ára – en þeir, sem geta farið í þetta í rólegheitum, klára verkefnið innan átta til tíu ára.“
Karólína segir að í þessu samhengi skipti þróun reglugerðanna varðandi flutning, sölu og ekki síst niðurskurð miklu máli. Reglugerðir verði að vera hvetjandi fyrir bændur til að rækta þolna gripi. Hún vill hvetja alla sem málið varðar að mæta í Miðgarð – spyrja, taka umræðu og koma breytingum í gang! „Þetta er einstakt tækifæri!“ segir hún og hefur svo sannarlega lög að mæla. Fyrirlestrarnir fara fram á ensku en verða þýddir jafnóðum og verður streymi að báðum fundunum.
Á fundinum kynna vísindamennirnir fyrstu niðurstöðurnar – meðal annars talar Vincent Béringue um næmisprófin mismunandi arfgerða sem eru í gangi í Frakklandi – og fyrirhugaðar rannsóknir, m. a. varðandi umhverfssmit. Sigurbjörg Bergsdóttir, sérgreinadýralæknir sauðfjársjúkdóma verður líka á staðnum.
Dagskráin er eftirfarandi:
17:00-18:30, opinn aukafundur fyrir sérstaklega áhugasama
- Tvö stutt erindi – meiri bakgrunnur (væntanlega um mismunandi riðustofna og um riðutilraunabú í Englandi)
- Það allra nýjasta úr næmisprófunum (Vincent Béringue; meira um það seinna sama kvöld)
- Mikill tími til að spyrja spurningar og tala við vísindamennina; e.t.v. verða einnig fulltrúar MAST til staðar
20:00, opinn upplýsingarfundur fyrir alla
- Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri: ávarp
- Sigurbjörg Bergsdóttir, sérgreinadýralæknir sauðfjársjúkdóma: ávarp og stutt erindi
- Angel Ortiz Pelaez, ESB-fulltrúi (fjarfyrirlestur): General overview to scrapie resistance breeding and regulations in EU, focus on options without or with delayed culling – Yfirlit: ræktun verndandi arfgerða í ESB og viðkomandi reglugerðir, áhersla á valkostum án niðurskurðar eða með frestaðan niðurskurð
- Ben Maddison, sérfræðingur fyrir príon-umhverfissmit, Englandi: Circulation of prions in classical scrapie infected farms before and after decontamination – Smitefni á riðubæjum fyrir og eftir sótthreinsun
Spurningar og kaffihlé – tækifæri til að tala við vísindamennina
- Vincent Béringue, príon-sérfræðingur, Frakklandi: Susceptibility / resistance of different genotypes – preliminary results from in vitro replication assay (PMCA) – Næmi mismunandi arfgerða fyrir riðusmiti – nýjustu bráðabirgðaniðurstöður úr PMCA-prófunum
- Eyþór Einarsson (RML), Karólína Elísabetardóttir: Arfgerðir á Íslandi í dag – staða fyrir sauðburð og fyrstu niðurstöður úr lambagreiningum
Spurningar
- Christine Fast, príon-sérfræðingur, Jörn Gethmann, faraldsfræðingur, Juan Carlos Espinosa, sérfræðingur um riðustofna: Introducing the ScIce project – Stóra Evrópu-verkefnið um riðu á Íslandi: yfirlit yfir rannsóknirnar næstu árin
Lokaumræða
Auk erindreka verða á staðnum og svara spurningum:
Stefanía Þorgeirsdóttir og Vilhjálmur Svansson, Keldum; Sigurbjörg Bergsdóttir, sérgreinadýralæknir fyrir sauðfé; Romolo Nonno, sem uppgötvaði verndandi áhrifin T137 á Ítalíu; Laura Pirisinu, sérfræðingur um riðustofna; John Spiropoulos, sérfræðingur m.a. um umhverfissmit og riðustofna; Kevin Gough, sérfræðingur um umhverfissmit; Fiona Houston, sérfræðingur m.a. varðandi riðu í hreindýrum; Charlotte Thomas, príon-sérfræðingur; Angélique Igel, PMCA-sérfræðingur; Katayoun Moazami, príon-sérfræðingur.
Streymi að báðum fundunum finnst hér: www.tinyurl.com/streymi-midgardur
Fundirnir verða einnig teknir upp og verða aðgengilegir fáum dögum eftir fundina: www.tinyurl.com/upptaka-midgardur
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.