Alþingi styrkir Fab Lab á Sauðárkróki
Á fundi atvinnu og ferðamálanefndar Skagafjarðar var í vikunni lagt fram til kynningar bréf frá Alþingi þar sem tilkynnt er um styrk til uppbyggingar Fab Lab stofu á Sauðárkróki.
Einnig voru lögð fram drög að samningi um uppsetningu á Fab Lab stofu á Sauðárkróki milli Sveitarfélagsins Skagafjarðar, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og samþykkti nefndin fyrirliggjandi drög með þeim breytingum sem ræddar voru á fundinum.
Fab Lab (Fabrication Laboratory) er stafræn smiðja með tækjum og tólum til að búa til nánast hvað sem er og er ætluð frumkvöðlum, nemendum, almenningi, fyrirtækjum og stofnunum. Nýsköpunarmiðstöð Íslands setti upp Fab Lab smiðju í Vestmannaeyjum sumarið 2008 sem nýtur mikillar vinsælda þar í bæ. Fab Lab smiðjan gefur ungum sem öldnum, einstaklingum og fyrirtækjum, tækifæri til að þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni, eins og segir á vef Nýsköpunarstöðvar Íslands. Hátækniseur Íslands sem staðsett er á Sauðárkróki hefur haft það á sinni stefnuskrá að standa fyrir kaupum og fjármögnun á tækjum fyrir FAB-LAB stofu á Sauðárkróki. Samið verður við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Fjölbrautarskóla NV um rekstur og starfsemi stofunnar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.